137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að starfandi formaður nefndarinnar tekur jákvætt í þær hugmyndir sem ég kem með fram og ég þekki hana af þeim skörungsskap að hún er vön að vera húsbóndi á sínu heimili þannig að ég treysti henni til að koma þessu í gegnum nefndina.

En akkúrat eins og hv. þingmaður kom inn á í sambandi við svæðaskiptinguna og byggðakvótann þá er það eins og menn hafa bent á og við vitum, að bátar frá Stykkishólmi koma til með að róa úr Rifi vegna þess að þaðan er styttra á miðin og fengsælla. Bátar úr Súðavík munu koma til með og róa frá Bolungarvík. Það eru þessir annmarkar sem við erum að benda á og ég sagði það áðan að mér fyndist að menn ættu að útfæra þetta nánar í þeim tillögum sem hér eru. En ég treysti á að ráðherrann geri það.

Ég setti hins vegar ekkert út á málefni nefndarinnar svo það sé skýrt vegna þess að ég sit ekki í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þekki ekki þau vinnubrögð. En hins vegar benti ég á það sem hv. þm. Róbert Marshall kvartaði yfir, þ.e. að þurfa að hitta umsagnaraðila og hann kvartaði yfir tímanum sem fór í það. Það var það sem ég var að benda á þegar menn eru að gera þetta.

En ég er alveg fullviss um að hafi meiri hluti nefndarinnar vilja til þess að koma við því veigamikla atriði sem ég er að benda á, vegna þess að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kvartaði yfir því að menn komi ekki með tillögur heldur bara kvaki, þá ítreka ég enn og aftur að reyna a.m.k. að halda þeim fyrir utan þetta árið, þeim sem hafa sannanlega selt frá sér mikið af heimildum til að komast ókeypis inn í og hins vegar að setja inn í kerfið að það megi vera hámark á afla á dag en ekki tengja það með þessum vitlausa hætti miðað við tegundir.