137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af því sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir talaði um að það hefði verið leitað til einhverra aðila um hvort hugsanlega væru einhverjir lagalegir ágallar á þessari hugmynd að fara með hana fram með þessum hætti.

Þá fyndist mér að það ætti að vera í skjali með álitinu þ.e. það yrði lögformlegt álit sem menn leituðu eftir og fengju skriflegt þar sem segir að þetta væri ekki framkvæmanlegt og þá væru menn ekki að vísa í einhver samtöl úti í bæ við einhvern og einhvern vegna þess að það er mjög mikilvægt að halda því til haga inni í ferli málsins.

Einnig, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá er þetta svona móralskt líka út á við. Ég held að því væri bara mjög mikilvægt fyrir meiri hluta nefndarinnar að geta bent á það. Vegna þess að það eru mjög margir sem eru ósáttir við þessa meðferð málsins. Það mundi styrkja nefndina, hvort heldur minni hlutann eða meiri hlutann í nefndinni, að hafa það uppáskrifað frá þar til bærum mönnum sem benda á að þetta væri ekki gerlegt.