137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er til umræðu mikilvægt mál, breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Fiskveiðar eru eins og við vitum öll undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og eins og kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar þá er það skylda stjórnmálamanna að ganga fram gagnvart þeirri atvinnugrein af ábyrgð og að sjálfsögðu þurfum við að vinna vel að heill þessarar atvinnugreinar.

Þess vegna hefur umræðan í dag verið dálítið merkileg í ljósi þess að stjórnarliðar, þ.e. þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hafa sakað stjórnarandstæðinga, sérstaklega sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, um að hafa viljað tefja málið með einhverjum sérstökum hætti.

Ég get einfaldlega ekki fallist á þá skýringu stjórnarliða því eins og ég sagði áðan þá er hér um að ræða hagsmuni þúsunda sjómanna og fiskvinnslufólks. Þetta er undirstöðuatvinnugrein margra byggðarlaga vítt og breitt um landið og þessi málaflokkur á það skilið að fá sanngjarna og mjög góða úrlausn þegar mál þessarar atvinnugreinar koma fyrir á vettvangi Alþingis. Það er síður en svo að það búi eitthvað annarlegt að baki þegar við höldum því fram að við þurfum að fara yfir þessi mál með mjög vönduðum hætti. Ég vil í því ljósi, svona sem tilraun til þess að við komum okkur upp úr þeim skotgröfum sem umræðan hefur verið í, fagna því að forustumenn nefndarinnar og í raun og veru nefndarmenn flestir hafa talað fyrir því að þetta mál þurfi að koma inn á milli 2. og 3. umr., að það sé í raun og veru ekki tækt til þess að afgreiða það sem lög héðan frá Alþingi. Þannig að það er nú strax viðleitni til þess að vanda efnismeðhöndlunina því eins og kemur fram í erindi Byggðastofnunar, með leyfi forseta:

„Byggðastofnun fékk frumvarpið sent í pósti 2. júní og umsagnarfrestur er veittur til 3. júní, þ.e. einn dagur. Svo skammur umsagnarfrestur er óásættanlegur og því mun stofnunin hugsanlega skila inn frekari umsögn ef frestur verður á afgreiðslu lagabreytinganna.“

Það segir sig náttúrlega sjálft að þegar undirstöðustofnun eins og Byggðastofnun er fær einungis einn sólarhring til þess að tjá sig um mjög viðamiklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða tel ég það ekki óásættanlegt. Og þegar þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks koma hér upp og benda stjórnarliðum á að þetta sé með öllu óásættanlegt þá er óviðunandi að liggja undir þeim ámælum að við séum viljandi að reyna að tefja afgreiðslu þessa máls. Það þarf einungis að vanda verulega til verka og ég trúi ekki öðru en að ágætir þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni geti, svo allrar sanngirni sé gætt, verið okkur sammála í þeim efnum að þetta mál hefur tekið mjög stuttan tíma.

Fyrir þá sem hafa setið í nokkur ár á vettvangi þingsins vil ég benda á að yfirleitt fá lagafrumvörp mun lengri umfjöllunartíma innan nefnda þingsins. En ég geri mér grein fyrir því að af hálfu stjórnarflokkanna og þá kannski sérstaklega hæstv. sjávarútvegsráðherra var mikil pressa lögð á að þetta mál færi sem fyrst í gegn.

Frú forseti. Það sem verið er að gera hér er að leggja til ákveðna grundvallarbreytingu á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þar sem við mörg hver höfum talað fyrir því að aflamark sé mun hagkvæmari útvegur en sóknarmark í ljósi þess að í núverandi kerfi geta þeir sem eru handhafar þessara veiðiréttinda skipulagt veiðar sínar til langrar framtíðar og m.a. hafa stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins náð mjög þýðingarmiklum samningum við verslunarkeðjur þar sem þau geta tryggt ákveðið afhendingaröryggi sem skiptir mjög mikli máli þegar kemur að sölu á afurðanna.

Í ljósi þess að nú er verið að hverfa að hluta til frá aflamarkinu yfir í sóknarmarkið vil ég benda á þann ókost sem það hefur vissulega í för með sér og væri rétt að heyra hvort hv. þingmenn hafa eitthvað við það að athuga. Ég ætla að vitna til umsagnar frá Svavari Þorsteinssyni sem hann sendi nefndinni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allir bátar hefji veiðar á sama tíma og veiðum verði framhaldið þar til veiðum á kvóta tiltekins landsvæðis er lokið. Þá sé lokað fyrir allar veiðar á því svæði. Áhrif þessa fyrirkomulags eru löngu þekkt. Fiskur kemur í land í miklu magni. Verðið lækkar mjög mikið á mörkuðum eða í beinum viðskiptum. Fiskvinnslur vinna fiskinn í ódýrari pakkningar til þess að geta annað því magni sem til fellur o.s.frv. Í stuttu máli má segja að allar veiðar og vinnsla verði á sem óhagkvæmastan hátt.

Einnig er mjög mikilvægt atriði sem ætti að vega þungt gegn því sóknarmarki sem fyrirhugað er, þ.e. slysahætta sjómanna þar sem róið verður til fiskjar í öllum veðrum af bátum af öllum stærðum og gerðum. Ef dagurinn er ekki nýttur hjá viðkomandi bát þá tapar hann þar með sínum 800 kílóum þann daginn. Því munu menn leggja allt í sölurnar til að geta róið upp á hvern dag þann tíma sem veiðar standa yfir.“

Frú forseti. Ég vil geta þess að ég er því miður ekki nefndarmaður í hv. nefnd og ég veit að örugglega hefur farið fram mikil umræða sérstaklega um öryggisþáttinn hvað þetta varðar. Og það hvort menn eigi að halda áfram í aflamarkinu eða sóknarmarki. Ég þykist viss um að ítarleg umræða hefur farið fram um það. En mér finnst að þetta sjónarmið þurfi að koma fram í þessari mikilvægu umræðu hér því ég held að ef við horfum til heildarhagsmunanna þá sé það búið að sanna sig að aflamarkið skili samfélaginu í heild sinni betri og verðmætari afurðum en sóknarmarkið. Við getum vitnað til margra skýrslna og greininga í þeim efnum.

Í ljósi þess að það kerfi sem við samþykkjum hér að óbreyttu mun leiða til mikillar sóknar af bátum af öllum tegundum og gerðum þá kemur það málefnum Landhelgisgæslunnar náttúrlega beint við. Með þeim breytingum sem við erum að leiða hér í lög er það alveg óumdeilt að menn munu reyna að leitast við að róa sem mest og þá í misjöfnum veðrum. Þar getur komið mikið til kasta Landhelgisgæslunnar við að aðstoða sjófarendur því okkur ber skylda til þess að tryggja öryggi þeirra sem best. Þess vegna skýtur það skökku við að við skulum heyra af því á opinberum vettvangi að það eigi að skera mikið niður í rekstri Landhelgisgæslunnar um leið og það á að fela henni mjög aukin verkefni með samþykkt þessa frumvarps sem hér um ræðir. Ég hefði því talið það heppilegt að ræða og fá ákveðið kostnaðarmat á því eða alla vega áætlanir um það hvar sú mikilvæga öryggisgæsla sem Landhelgisgæslan sinnir, hvað breytingar á þessum lögum muni þýða.

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda því fram, alls ekki og ég tala hér í fullri hreinskilni, að við framsóknarmenn tölum á móti einhvers konar strandveiðum eða einhvers konar útfærslu á þeim. Síður en svo. En hins vegar þurfum við að skoða þætti eins og hvort sóknarmarkið sé það heppilegasta í þessu eða hvort við hefðum getað bundið þetta að einhverju leyti við aflamark, þ.e. hámark á hvern bát. Mér hefði fundist það verulegur akkur ef við mundum skoða það mun betur og það getur vel verið eins og ég segi og endurtek enn og aftur að það hafi verið gert á vettvangi nefndarinnar. En við erum hér í aðalumræðu um þetta mikilvæga mál sem felur í sér ákveðna strúktúrbreytingu á fiskveiðistefnunni eins og hún hefur verið undangengin ár.

Frú forseti. Eitt af síðustu atriðunum sem ég vil nefna eru þær væntingar sem stjórnarliðar hafa sérstaklega talað fyrir í þessari umræðu — enda er það eðlilegt þar sem þeir styðja hér sinn málstað — en það hefur komið fram hjá fjölmörgum byggðarlögum að komi til skerðingar á byggðakvóta, eins og nú er ráð fyrir gert, hann hefur verið skertur um 50% á heildina litið, þá mun það óhjákvæmilega leiða til þess að einhver byggðarlög, smábyggðarlög munu lenda í því að byggðakvóti þeirra mun skerðast. Það er ekki hægt að minnka byggðakvótann um helming án þess að það hafi áhrif á þessi byggðarlög.

Og hver eru þessi byggðarlög, frú forseti? Þetta eru þau byggðarlög sem hafa lent í miklum áföllum m.a. vegna þess að fiskveiðiheimildir hafa farið burt úr viðkomandi sveitarfélagi, jafnvel yfir eina nótt og það er náttúrlega einn af vanköntum kerfisins gagnvart byggðunum, að fiskveiðiheimildir geti farið mjög skyndilega burt úr viðkomandi byggðarlagi. Ég vil nú minna á að það var núverandi hæstv. forsætisráðherra, svo við förum í smá söguskýringar, sem átti aðild að þeirri ríkisstjórn sem setti frjálsa framsalið á á sínum tíma. Það hefði verið fróðlegt að spyrja hæstv. ráðherra um skoðun hennar á þessari stöðu mála í dag.

En vegna frjálsa framsalsins þá lögðu menn fram byggðakvótann sem ákveðinn þátt, ákveðinn öryggisventil til þess að koma til móts við þau byggðarlög sem lenda mjög illa í flutningi á veiðiheimildum. En nú er sem sagt verið að minnka þá aðstoð gagnvart þeim byggðarlögum sem eru mörg hver smæstu byggðarlög landsins sem byggja afkomu sína nær alfarið á sjávarútveginum. Það er verið að skerða byggðakvótann um heil 50%. Það er því mjög eðlilegt að það heyrist raddir frá þeim byggðarlögum þar sem fólk hefur mjög miklar áhyggjur af stöðu mála og má þá nefna byggðarlög í kjördæmi hv. starfandi formanns nefndarinnar. Við getum tekið Súðavík og Stykkishólm þar sem kom fram að þar er ein fiskvinnsla eða fiskvinnslufyrirtæki sem heldur uppi 40–50 störfum þar sem byggðakvótinn er akkerið í starfsemi hjá viðkomandi fyrirtæki. En með samþykkt þessa frumvarps er óneitanlega komin ákveðin óvissa um starfsemi margra fyrirtækja vítt og breitt um landið þar sem hundruð fiskvinnslufólks starfar og hundruð sjómanna sjá væntanlega um að afla hráefni fyrir.

Þannig að það er ekki óeðlilegt í ljósi þess að þetta mál ber nú nokkuð brátt að og á að fá mjög hraða meðferð í gegnum þingið að við tölum um vandaða málsmeðferð. Og mér sýnist á umsögnum m.a. frá Byggðastofnun að það þurfi að ræða málið á milli 2. og 3. umr. Það er alltaf vandasamt að útdeila gæðum. Það er verið að gera það í þessu tilviki og það verður aldrei óumdeilt, ég geri mér grein fyrir því. Þess vegna er mikilvægt að við vöndum vel til verka hvað þessi mál áhrærir þótt vissulega sé tímapressa á þessu máli.

En mig langar líka, líkt og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi í ræðu sinni, er snertir væntingar, en nú bíða margir í ofvæni eftir því að geta hafið frjálsar handfæraveiðar, jafnvel einstaklingar sem nýlega hafa selt sig út úr þessari atvinnugrein með miklum hagnaði og eiga bát, þeir geta byrjað upp á nýtt ásamt því þeir eiga vænar fyrningar inni á bankareikningi. Það er vissulega er eitt af þeim atriðum sem við hljótum að líta til að sé einhver galli á þessari aðferð sem við leggjum hér út, þ.e. að menn hafa selt þessi gæði frá sér eða afnotaréttinn háu verði en nú er verið að opna fyrir aftur þannig að þeir sem eru nýbúnir að selja sinn kvóta geta byrjað upp á nýtt, „frítt“. Þeir þurfa ekki að kaupa sér aðgang að greininni, ólíkt þeim aðilum sem viðkomandi seldi kvóta dýrum dómum fyrir stuttu síðan.

Það eru óneitanlega ágreiningsefni hvað þessi mál varðar, þær væntingar sem verið er að gefa til þessara aðila og reyndar í sjávarútveginum almennt þegar við horfum til stórra fiskframleiðslufyrirtækja hér á landi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að fyrna eigi kvótaheimildir þeirra fyrirtækja á einungis 20 árum, um 5% á ári. Síðan eftir að sú yfirlýsing var gefin þá á að efna til samráðs með aðilum í útgerð og meira að segja með stjórnarandstöðunni til þess að útfæra það. En í raun og veru liggur útfærslan í grófum dráttum fyrir þar sem menn tala um 5% fyrningu á 20 árum. Þetta hefur leitt til þess að það hefur dregið verulega úr hvata þeirra sem reka þessi fyrirtæki, m.a. að halda þeim við og horfa fram á veginn. Hvernig eiga viðsemjendur þeirra eins og í bankakerfinu að líta á framtíð þessara fyrirtækja þar sem er ljóst samkvæmt úttektum að flest þeirra muni ekki þola nema 6–7 ár með 5% fyrningu þannig að það fyrirtæki fer í þrot? Það hlýtur þar af leiðandi að vera mjög erfitt fyrir íslensk fiskvinnslufyrirtæki sem veita mörgum þúsundum fiskvinnslufólks og sjómanna atvinnu á erfiðum tímum í íslensku samfélagi, að ganga á fund síns bankastjóra og reyna að útskýra framtíðarfyrirkomulagið í viðkomandi rekstri þegar þessi yfirgengilega óvissa er fyrir hendi.

Ég hefði því talið rétt, svo allrar sanngirni sé gætt, að við hefðum fyrst boðað til samráðsins um hver framtíðarstefna okkar eigi að vera í sjávarútveginum með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og öðrum aðilum í íslensku samfélagi og útfæra stefnuna svo. Það hefði í raun og veru verið í anda þeirra samræðustjórnmála sem Samfylkingin hefur nú sérstaklega gefið sig út fyrir að stunda. En því miður virðist svo vera í allt of mörgum málum að menn áætla og gefa sér niðurstöðuna fyrir fram en vilja ræða síðan útfærsluna á niðurstöðunni eftir á. Það höfum við m.a. líka séð í Evrópumálunum þar sem Samfylkingin hefur haft svipuð vinnubrögð sem ég tel að eigi að heyra fortíðinni til.

Ég vil að lokum segja að það er síður en svo að við leggjumst gegn þessu máli, að minnsta kosti ekki sá sem hér stendur, fyrir fram. En við höfum talað fyrir því að þetta mál þurfi mjög ítarlega skoðun á vettvangi nefndarinnar. Það er mjög eðlilegt sjónarmið og ég hefði haft gaman af því að heyra nýja þingmenn sem eru að hefja, vonandi glæstan feril hér á vettvangi þingsins taka undir það að Alþingi Íslendinga eigi að fara yfir mál með mjög yfirveguðum hætti í ljósi þess að við horfum upp á það að margir umsagnaraðila hafa fengið skamman tíma til þess að fara yfir málið.

En ég fagna því að það eigi að ræða þessi mál milli 2. og 3. umr. og vonandi munu menn í þeirri vinnu hafa heildarhagsmunina að leiðarljósi því eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá búa vel flest byggðarlög á landsbyggðinni við sjávarútveg sem eina af grunnatvinnugreinum sínum og það er mikilvægt að við göngum hægt um gleðinnar dyr þegar við ákveðum miklar stefnubreytingar á þeim sviðum þó að við útilokum að sjálfsögðu ekki neitt. En ég frábið mér þess að menn haldi því fram og láti að því liggja að þingmenn hafi komið til í þessarar umræðu, og þá sérstaklega stjórnarandstæðingar, með einhver annarleg sjónarmið eða markmið í huga. Þetta mál tengist svo gríðarlega mörgum og mikilvægum hagsmunum í samfélaginu að ég tel að slíkur boðskapur stjórnarliða sé ekki boðlegur í umræðu um það. Ég fagna því að það eigi að ræða þetta mál milli 2. og 3. umr. í hv. sjávarútvegsnefnd og vonandi verður umræða á milli nefndarmanna og við aðila úti í samfélaginu með fullnægjandi hætti þannig að hægt verði að afgreiða þetta mál málefnalega og vel héðan frá Alþingi.