137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér er á ferðinni frumvarp til laga sem snýr að grundvallaratvinnuvegi okkar Íslendinga og er auðvitað ein af mörgum fyrirhuguðum breytingum sem gerðar hafa verið á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum nú við. Þessi fyrirhugaða breyting er þó um margt sérstök af því að hún hreyfir við ákveðnum grundvallarsjónarmiðum í fiskveiðistjórnarkerfinu með þeim hætti að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Í því máli er reynslan harður kennari og menn geta áttað sig nokkuð vel á því hvaða afleiðingar þetta frumvarp muni hafa ef þeir hafa kynnt sér sögu fiskveiða við Íslandsstrendur og fiskveiðistjórnarkerfanna.

Ég get tekið undir að það er nauðsynlegt að endurskoða jafnt og þétt þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og núna liggur fyrir að ráðast í slíka endurskoðun í nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra. Það er þess vegna alveg furðulegt og allt að því óskiljanlegt hvernig stendur á því að á sama tíma og slíkt nefndarstarf er áætlað og sett af stað til að ná fram meiri sátt um fiskveiðistjórn á Íslandsmiðum skuli vera til umræðu þetta frumvarp um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu annars vegar og hins vegar hið illræmda og alræmda frumvarp, eða hugmyndir ríkisstjórnarinnar öllu heldur, um afskrift á fiskveiðikvótunum, aflaheimildunum, sem augljóslega munu valda gríðarlegum vandræðum í greininni og mun vart þurfa um að búa ef slíkar hugmyndir ganga fram. Þess vegna tel ég reyndar að það færi vel á því að við reyndum að klára nefndarstarfið áður en við afgreiddum frá þinginu frumvarp eins og þetta, en ég geri mér svo sem ekki miklar vonir um það í ljósi þess hversu hart stjórnarþingmenn hafa sótt fram með að klára þetta mál með þessum mikla hraða.

Ef maður reynir að átta sig á efni þessa máls án þess að tapa sér í einhverjum sérstökum smáatriðum er rétt að spyrja sig, sem á auðvitað að gera við öll svona mál, hvernig þjóðhagslegra hagsmuna er gætt gangi þetta frumvarp eftir. Þá kemur náttúrlega sú staðreynd að fiskunum sem ætlað er að við getum veitt mun ekki fjölga með samþykkt þessa frumvarps á Alþingi. Ég á ekki von á því, hv. þm. Helgi Hjörvar, að við þingmenn, þótt voldugir séum og öflugir ábyggilega þegar kemur að lagasetningunni, ráðum yfir því hvernig árar í hafinu, hversu mörgum fiskum þar er að dreifa og hversu mikla möguleika við eigum til að veiða. Verði þetta frumvarp samþykkt þurfa menn að spyrja: Mun heildarafkoman í sjávarútvegi verða betri eða verri? Hvernig getur maður mælt það, frú forseti? Jú, með því að menn skoði hvaða tekjur menn hafa af þessum fiskum sem við veiðum og til hversu mikils kostnaðar er stofnað. Hvort skyldu menn halda að bátunum sem eiga að veiða þessi 3.955 tonn muni fjölga þegar þetta frumvarp verður samþykkt sem lög frá Alþingi, fækka eða standa í stað? Hvort halda menn að fleiri bátar eða færri fari á sjó? Það er alveg augljóst að þeim mun fjölga. Bátum á Íslandsmiðum sem eiga að veiða þessa fiska sem við höfum til að veiða mun fjölga. Hvað þýða fleiri bátar á sjó? Það skyldi þó aldrei þýða það að kostnaður við veiðarnar færist upp. Hvað þýðir aukinn kostnaður, frú forseti, í sjávarútvegi? Það þýðir að samfélagið verður af verðmætum. Það þýðir að íslenskt samfélag verður fátækara en ella. Það þýðir að þessi mikla auðlind mun skila minni velmegun til þjóðarinnar en annars. Það skiptir meginmáli þegar menn mynda sér afstöðu til þessa frumvarps.

Það vill þannig til, frú forseti, að við höfum töluverða reynslu af því að hafa opnar, frjálsar veiðar. Það er ekki svo eins og hér hefur stundum verið talað í þessari umræðu að menn þurfi að prófa sig áfram, að menn viti ekki niðurstöðuna af þessu. Hún er alveg ljós og alveg fyrirsjáanleg og ber reyndar vott um að þeir sem hafa hér um vélað virðast ekki hafa kynnt sér sérstaklega vel sögu fiskveiða á Íslandi eða fiskveiðistjórnarkerfanna. Hvernig var það, frú forseti, þegar við bjuggum við krókakerfið, þegar við bjuggum við dagakerfið, þegar við vorum með svipað kerfi og hér er lagt upp með? Hvernig skyldi reynslan hafa verið af því? Jú, það var stanslaust verið að fækka dögunum sem voru til ráðstöfunar. Það voru gríðarlegar deilur. Kerfið sjálft hafði áður verið opið og bátarnir flykktust inn í það. Fjöldi báta sem máttu veiða innan þess kerfis rauk upp og það horfði allt til vandræða og til voða. Eru menn búnir að gleyma því þegar við bjuggum við skrapdagakerfið sem var líka opið, hvernig það allt saman virkaði? Ég er ekki svo gamall en ég náði þó að vinna í því kerfi og veit hvernig það virkaði, hvaða óskaparugl það var allt saman, hvernig verðmætum var sóað gríðarlega og íslenska þjóðin tapaði óendanlega miklum verðmætum vegna þess að við vorum með þannig kerfi. Sporin hræða. Hvernig á að útfæra þetta? Þetta mun allt snúast um útfærsluna, þetta mun allt saman snúast um það hvernig við ætlum að gera þetta. Ég gríp í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal í reglugerð kveða á um hvernig aflaheimildir skiptast á einstaka mánuði og skal ráðherra með reglugerð stöðva veiðar á hverju svæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.“

Hafa menn velt fyrir sér hvernig þetta muni virka? Hafa menn velt því fyrir sér? Þetta mun þýða að þetta er opið kerfi. Bátunum mun fjölga, þeir mega veiða 800 kíló á dag sem þýðir að fjölgi þeim eru þeir fyrr í mánuðinum búnir að klára þann hluta sem tilheyrir viðkomandi svæði. Hvað þýðir það fyrir útgerðarfyrirtæki? Það verða ekki bara einstaklingar í þessu, það verða fyrirtæki á bak við þessa báta. Þá borgar sig að fjölga bátunum, gera þá öflugri, nota stærri vélar, auka sóknargetuna í samkeppni við hina vegna þess að ef hann gerir það ekki veiða hinir. Þar með fara menn bara í nákvæmlega sömu stöðu og var t.d. í skrapdagakerfinu þar sem þeim dögum fækkaði á hverju ári sem við máttum nota flotann. Þetta er uppskrift að nákvæmlega sömu vitleysunni. Ef menn halda að þeir séu að gera þjóð sinni gagn með þessu hafa þeir mjög rangt fyrir. Þetta mun draga úr hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi, einmitt þegar við þurfum á því að halda að hagkvæmnin sé sem mest. Það verður spennandi að fylgjast með því þegar sjávarútvegsráðherrann ákveður daginn innan mánaðarins sem hann ætlar að loka á veiðarnar og hvaða afleiðingar það muni hafa þegar menn standa kannski um miðjan mánuðinn og það er sagt: Þið megið ekki veiða meira það sem eftir er þessa mánaðar. Hafa menn hugleitt hvernig það muni virka og hvernig pressan verður frá þeim sem eiga þessa báta á að fá að fjölga dögunum og möguleikum til að veiða? Sú pólitíska umræða og þau áföll verða alveg gríðarleg. Eftirlitskerfið í kringum þetta allt saman verður gríðarlegt. Hvernig sjá menn fyrir sér pólitíska ákvörðun við að færa á milli svæða? Sagt verður að sum svæði verði verr stödd en önnur, þau þurfi meiri aflaheimildir til að sinna þessu o.s.frv. Flækjustigið verður óendanlegt og ruglið þar af leiðandi líka. Þessi þátturinn verður, held ég, ekki þjóðinni til neinnar sérstakrar gæfu.

Svo bætist við hvernig það verður að samþætta fiskvinnsluna og þessa leið af því að þetta verða ólympískar kappveiðar sem ganga út á að veiða sem hraðast og sem mest og það gerir það að verkum að þeir sem eru í fiskvinnslu munu eiga erfiðara með að nýta þennan afla þannig að úr því komi hámarksverð. Það er augljós staðreynd fyrir alla þá sem vilja skoða þetta mál að sú verður niðurstaðan. Ég man einmitt eftir því sjálfur þegar ég var strákur að vinna í fiskvinnslu norður á Siglufirði, einmitt á þeim tíma sem skrapdagakerfið var, hvernig aflameðferðin var á sumrin af því að menn voru í ólympískum kappveiðum. Reynslan kennir okkur að þegar við förum út í svona kerfi, eins og er lagt upp með hérna, mun það hafa alvarleg áhrif og það sem mun síðan gerast er að við munum taka mörg ár í að bakka aftur út úr þessari vitleysu. Það munu fara mörg ár í það af því að krafan verður alltaf um það eftir því sem bátunum fjölgar — og þeim mun fjölga — að það megi veiða aukinn afla með þessum hætti, dögunum sem menn mega vera á sjó verði fjölgað. Það er svo augljóst. Þannig var það þegar við fengumst við þann vanda sem leiddi af því að við bjuggum til krókaaflakerfið og dagakerfið í kringum það allt saman. Eru menn virkilega búnir að gleyma því öllu saman? Á ég að trúa því, virðulegi forseti?

Síðan er það rétt sem hefur komið hér fram að þessi uppsetning er auðvitað stórhættuleg út frá öryggissjónarmiðum. Af því að maður getur skoðað í eigin reynslu man ég vel eftir því vestur á fjörðum, ég held að það hafi verið sumarið 1992 eða 1993, þegar við vorum að vinna í svona svipuðu umhverfi og hérna á leggja upp með, þegar mjög litlu munaði að illa færi hjá sjómanni sem var einn á bát sem einmitt fór, af því að tímabilið var að klárast, út á sjó í vondu veðri vegna þess að hann ætlaði sér að nota daginn. Hann vissi að ef hann færi ekki mundi hann tapa deginum. Kappið var mikið, viljinn var mikill, getan var heilmikil en það sökk undan honum og hann velktist um í gúmmíbát, gott ef ekki einn eða tvo daga, slapp lifandi frá því en það er akkúrat vegna þessa sem allt kerfið hefur verið fært. Það er þetta fyrirkomulag sem við höfum unnið okkur frá og það er sorglegt að við skulum núna opna á þetta. Þetta er opnun sem mun ekki skila íslensku þjóðarbúi auknum verðmætum, augljóslega ekki, það mun skila minni verðmætum vegna þess að sóknarkostnaðurinn mun vaxa. Það verða fleiri bátar sem sækja þessa fiska eins og ég lýsti í upphafi ræðu minnar. Öryggismálum sjómanna er stefnt í voða og það er merkilegt að það skuli hafa komið fram að menn eigi eftir að fá betur inn umsagnir og skoðanir Landhelgisgæslunnar þó að eitthvað hafi komið í formi skriflegra svara og þegar menn horfa til þess hvernig menn geta samþætt veiðar og vinnslu er það líka vandamál sem er verið að búa til. Allt á þetta að gerast í nafni þess að einhverjir aðrir eigi að veiða á Íslandsmiðum en þeir sem eru að veiða núna. Það er heila málið. Eftir stendur það vandamál sem hér hefur verið lýst af mörgum hv. þingmönnum að þeir hafa sterkustu stöðuna sem hafa fellt sig út úr greininni en eiga þó bátana. Þeir hafa langsterkustu stöðuna.

Auðvitað munu stærri útgerðarfyrirtæki einhenda sér í þessar veiðar eða halda menn að þeir sem eru núna að reka stærri útgerðir muni ekki taka þátt í þessu? Halda menn að þeir muni t.d. ekki setja upp þau módel að vera með bátinn sinn með kvóta yfir veturinn og koma sér síðan yfir í þetta kerfi? Það virkar bara þannig. Þetta opnar aðganginn og það mun alltaf enda með skelfingu. Við Íslendingar og þeir sem hafa kynnt sér fiskveiðistjórnarkerfið og reynsluna af því höfum a.m.k. séð að þar sem við höfum haft þetta opið eins og í skrapdagakerfinu, eins og í krókamarkinu og öllu þeim kerfum sem við höfum verið með, höfum við lent í vandræðum. Eigum við hv. þingmenn ekki núna að reyna að læra af þessari reynslu og fara ekki út í þessa vitlausu leið? Ég held að það séu þannig tímar á Íslandi að við eigum að gera allt sem við getum til að auka vissu í sjávarútvegi, auka afraksturinn af þeim afla sem við höfum til ráðstöfunar til að hjálpa okkur út úr yfirstandandi vanda og þeim sem fram undan er, en ekki eins og gert er með þessu frumvarpi. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um afskriftir á aflaheimildum draga úr allri vissu, skapa óvissu og jafnvel öngþveiti. Það eigum við ekki að gera.

Hitt er síðan annað mál að það kerfi sem við búum við er ekki fullkomið. Ég hef úr þessum ræðustól og í greinaskrifum og á fundum víðs vegar lýst þeirri skoðun minni að það séu alvarlegir vankantar á þessu kerfi sem snúa að samspili líffræðiráðgjafarinnar annars vegar og aflamarkskerfisins hins vegar. Ég tel að þar sé víða pottur brotinn og stór og mikil verkefni fram undan til að reyna að vinna sig í átt til betra samspils þarna á milli og til að auka þekkingu okkar á náttúru og lífríki hafsins. Hinn stóri vandi sjávarbyggðanna á Íslandi, sérstaklega minni sjávarbyggðanna sem hafa átt svo mikið undir þorskveiðum, felst einfaldlega í því að á undanförnum 10–15 árum höfum við þurft að skera aflaheimildir gríðarlega mikið niður. Það að vera kominn niður í þær tölur sem við höfum séð á undanförnum árum í þorskveiðinni er skýringin að stórum hluta á því hvernig staða mála hefur þróast í hinum veikari byggðum, einfaldlega vegna þess að bara innkoman fyrir þessi samfélög hefur minnkað í fullu samræmi við það sem afli hefur verið skorinn niður um. Það er stóri vandinn og ég sakna mjög meiri umræðu um þau mál, um Hafrannsóknastofnun, samspil hennar og ráðgjöf við það kerfi sem við höfum búið við. Það væri uppbyggilegt og til þess fallið ef við gætum leyst þau vandamál betur að auka þann afla sem við höfum til skiptanna, auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi og auka möguleika byggðanna til að blómstra, þróast og eflast. En það frumvarp sem hér er á ferðinni gerir ekkert slíkt. Það mun óumflýjanlega fjölga þeim bátum sem eru á sjó til að sækja þá fiska sem í boði eru. Með öðrum orðum mun það þýða fyrir íslenskt þjóðarbú að minna verður eftir fyrir þjóðina. Það er staðreyndin og það er það sem þetta frumvarp felur í sér.

Hv. þingmenn hafa sumir hverjir talað um þá von sem þessu frumvarpi fylgir. Ég leyfi mér að fullyrða að það er falsvon sem verið er að búa til, það er falsvon að halda því fram að hægt sé að hafa fiskveiðar á Íslandi þannig að það sé opinn aðgangur. Það mun alltaf fara sömu leiðina og hefur farið í þau skipti sem við höfum haft það þannig. Það er ekki eins og að þetta hafi ekki verið reynt og það sem mun gerast núna er að fullt af einstaklingum og fyrirtækjum mun byrja að fjárfesta í bátum til að fara inn í þessar veiðar. Hvað mun svo gerast af því að þeim fjölgar? Þá fækkar sjómönnum sem mega veiða í hverjum mánuði þangað til veiðarnar eru orðnar óhagkvæmar. Hvað mun þá gerast? Þeir sem trúðu þessari von, þeir sem trúðu því sem haldið er fram í frumvarpinu að væri hægt en er ekki hægt, munu þá standa frammi fyrir offjárfestingum og menn munu tapa. Þetta frumvarp mun ekki fjölga fiskunum sem eru til skiptanna, alveg örugglega ekki.

Mér finnst svo sárgrætilegt, frú forseti, og undarlegt að við séum að fara í gegnum þessa umræðu núna með alla þá reynslu og þekkingu sem er í íslensku samfélagi og í þessum sal — var a.m.k. — á þessum vandamálum og þessum málum, hvaða tækifæri menn hafa til að taka á þeim, að mönnum skuli detta í hug að þetta sé einhver lausn, að menn geti farið þessa leið. Það er verið að búa til falsvon og ekkert annað. Eftir örfá ár mun ekkert annað gerast en að dregið hefur úr dögunum sem menn geta notað bátana sína á sjó, það dregur úr arðsemi fjárfestinganna þangað til það er komið niður í núll og menn lenda í mínus. Þá þurfa mann að vinna sig aftur út úr þessu kerfi, aftur frá einmitt þessu sem við lögðum upp með hérna. Þess vegna, frú forseti, er þetta frumvarp um margt ólíkt þeim mörgu breytingum sem hafa verið gerðar á íslensku fiskveiðistjórnarkerfi undanfarin ár. Það er ólíkt hvað það varðar að það fer á ákveðna grunnstoð þess kerfis sem við búum við og breytir forsendum þannig að það horfir til ills fyrir íslenskt samfélag. Þess vegna vona ég að á milli 2. og 3. umr. fari hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vel yfir þetta mál og sjái hvort hún geti ekki lagað það örlítið, í það minnsta lágmarkað þann skaða sem verður augljóslega af þessu máli úr því að ríkisstjórnarmeirihlutinn er algerlega ákveðinn í því að þvinga þetta fram.

Ég skora á þá þingmenn sem sitja í nefndinni að gefa sér tíma, láta ekki spyrjast um sig það sem kom fram hjá einum hv. þingmanni, að Byggðastofnun hafi borist bréf þar sem í stóð að menn hefðu einn sólarhring til að senda inn umsókn í jafnmikilvægu máli og þessu. Ég vona að rangt hafi verið eftir haft hjá hv. þingmanni en það er a.m.k. tækifæri til að laga þessi mál og reyna að vinna frumvarpið betur. Eins og það er núna úr garði gert hefur það ekki bara engin áhrif, það hefur vond áhrif á íslenskan sjávarútveg. Það er það sem mun koma út úr þessu máli.