137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er kannski best að byrja á því að taka upp athugasemd hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að Byggðastofnun hafi verið gefinn sólarhringsfrestur til að tjá sig um það frumvarp sem hér er til umræðu. Það var gefinn vikufrestur til umsagna svo að það komi skýrt fram.

Ég er satt að segja svolítið ráðvillt í málflutningi margra hv. þingmanna og ekki síst síðasta ræðumanns þar sem talað er um að hér sé verið að gefa mikla falsvon. Ég get reyndar tekið undir að væntingarnar til afrakstursins af þessu frumvarpi kunna að vera fullmiklar í einhverjum tilvikum en að þetta sé falsvon og tálsýn annars vegar og hins vegar er svo talað um að að sjálfsögðu hljóti stórar útgerðir að sækja í strandveiðarnar og nýta forskot sitt og veiðigetu. Frumvarpið gerir ráð fyrir 800 kílóum af þorski á dag. Ég sé ekki mjög stórar útgerðir setja skip sín og tækjaafla í slíkar veiðar, a.m.k. ekki í ríkum mæli, en það kann að vera.

Svo eru strandveiðar við Ísland kallaðar vitleysa. Getum ekki reynt að ræða þetta mál og taka það aðeins upp úr öllum þessum fullyrðingaflaumi og öllum þessum sterku orðum? Eins og menn vita, ef þeir vilja horfa á þetta í ljósi einhverrar sanngirni, þá er þetta mál, þetta frumvarp, opnun á kerfi sem hefur verið mjög lokað. Þetta gefur byggðarlögum tækifæri til glæðingar í atvinnulífi og þetta gefur ákveðna von um afkomuauka og lífskjarabót fyrir ákveðinn hóp Íslendinga. En reynslutíminn er stuttur og tíminn er orðinn mjög dýrmætur.

Menn tala um að það eigi að vanda til verka. Vissulega á að vanda til verka en reynslan er góður kennari. Nú er komið fram á mitt sumar og það er nokkuð mikils virði held ég að menn fái að reyna þessar strandveiðar á þeim forsendum sem hér eru gefnar þann tíma sem gefinn er í frumvarpinu, þ.e. til haustsins. Eins og ég sagði áðan þá verður maður stundum svolítið vondaufur þegar málum er fundið flest til foráttu en tillögur til bóta koma ekki. Það er svolítið þreytandi að hlusta á slíkan málflutning til lengdar.

Ég vil nota tíma minn í ræðustóli til þess að fara nokkrum orðum um þær athugasemdir sem hafa komið fram í nefndaráliti minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það er t.d. talað um það í álitinu að menn muni þurfa að leggja í umtalsverða fjárfestingu til að geta nýtt sér þessar strandveiðar. Það þarf enginn að leggja í umfangsmikla fjárfestingu fyrir bráðabirgðaákvæði sem gildir til haustsins og það er náttúrlega alveg skýrt að það er ekki ráðlegt fyrir nokkurn mann að fara að leggja í umfangsmikla fjárfestingu vegna fyrirkomulags sem er gert í tilraunaskyni, það væri náttúrlega óðs manns æði enda held ég að mönnum detti það í sjálfu sér heldur ekkert í hug.

Það er talað um óvissu, að boðið sé upp á algjöra óvissu með þessu frumvarpi. Hver er óvissan? Það eru ákveðnir dagar sem gert er ráð fyrir að veitt sé. Það er ákveðið magn sem gert er ráð fyrir að veitt sé, það er ákveðinn meðafli sem tilgreindur er. Það eru ákveðin landsvæði og ráðherra fær reyndar heimild samkvæmt breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar til þess að kveða enn skýrar á um nánari svæðaskiptingu og löndunarstaði. Það er ákveðinn tími sólarhringsins sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Ég sé því ekki að óvissan sé neitt mjög mikil umfram það sem við teljum okkur síðan geta lært af reynslunni ef þessar strandveiðar fá að komast á og vera við lýði um einhvern tíma.

Það er talað um að verið sé að færa veiðirétt í umtalsverðum mæli frá veikustu sjávarbyggðunum, þeim byggðum sem hafa helst misst frá sér aflaheimildir. Frjálsar strandveiðar og handfæraveiðar eins og hér eru lagðar til ættu einmitt að bjóða upp á glæðingu atvinnulífs og lífskjara, einmitt í þessum byggðum. Eins og fram kom í máli mínu áðan er einmitt í breytingartillögum meiri hlutans gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilað að fara út í nánari svæðaskiptingu til þess að koma til móts við þau byggðarlög sem hafa verið mjög háð byggðakvóta.

Síðan er talað um að verið sé að vísa án nokkurra skilmála inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, að taka afstöðu til svæðaskiptingarinnar. Það er nú einu sinni Alþingi Íslendinga sem setur lögin og skapar skilyrðin en það er framkvæmdarvaldið sem fer í útfærsluna og í fagráðuneytunum er eðlilegt að nánari útfærsla eigi sér stað í samráði við þá sem hagsmuna eiga að gæta. Alþingi getur ekki í sjálfu sér verið með nefið ofan í hvers manns koppi í þeim skilningi en auðvitað er eðlilegt og gott að slík umræða eigi sér hér stað þannig að hún sé við lýði. En ég held að ráðuneytinu sé fullkomlega treystandi til þess að kveða nánar á um þessi atriði.

Öryggismál hafa verið nokkuð til umræðu. Í því sambandi er náttúrlega vert að minna á að í þessu frumvarpi er gerð sama krafa til haffærni skipa sem fara til þessara veiða eins og hafa alltaf verið gerðar og eru gerðar til allra fiskiskipa. Það er því ekki slegið af neinum kröfum gagnvart þeim sem munu sækja þessar strandveiðar. Hins vegar ef eftirlitsaðilarnir hafa verið að sýna einhverja óeðlilega tilslökun varðandi eftirlitið, eins og nefnt var í málflutningi hv. þm. Jóns Gunnarssonar fyrr í dag, þá er það bara sjálfstæð umræða sem þarf að fara fram. Mér heyrist að hafi verið tekið á því atriði og að umræddur eftirlitsaðili hafi tekið einmitt tillit til athugasemda sem komu fram í umræðum í nefndinni og þá hafa þær athugasemdir orðið til góðs. En þær eiga í raun og veru ekki að vera hamlandi fyrir almennar strandveiðar við Ísland, það segir sig sjálft.

Bátar og veiðarfæri hafa hækkað í verði, segja menn. Það eru tvær hliðar á því máli. Það getur verið að það sé einmitt bara hið besta mál að bátar og veiðarfæri hafi hækkað í verði og séu verðmæt fjárfesting fyrir þá sem hyggja á strandveiðar.

Það er auðvitað eitt og annað sem þarfnast skoðunar við og ég bind miklar vonir við að reynslan af þeim mánuðum sem fram undan eru muni færa okkur einhverja lærdóma og að við munum síðan á þessum vettvangi taka þá reynslu inn í þessa umræðu og leggja þá vonandi framtíðarskipulagi strandveiða við Ísland eitthvað gott til ef einhverjir augljósir vankantar koma í ljós sem þarf að sníða af.

Grundvallaratriðið er kannski fyrst og fremst þetta: Við lifum á erfiðum tímum og á slíkum tímum er gott að geta átt von og séð fram á gott fiskirí, þó að það séu ekki nema 800 kíló á dag.