137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af frestinum sem Byggðastofnun fékk til þess að skoða þetta mál, þá liggur það fyrir í skjali frá Byggðastofnun að það var einn dagur sem stofnunin hafði frá því að bréfið barst til hennar þangað til hún átti að vera búin að skila áliti.

Í öðru lagi það sem er mjög ámælisvert við þetta frumvarp er þessi nálgun, að þetta sé eins og ég orðaði það áðan í ræðu minni, veiðar í tilraunaglasi. Menn ætlast til að farið sé af stað með þetta fyrirkomulag, það er greinilega ekki mikill sannfæringarkraftur á bak við þessa hugmynd, því að það hefur komið fram bæði hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formanni nefndarinnar og þeim öðrum sem hafa talað fyrir þessu máli að þetta séu tilraunaveiðar og það er auðvitað sú óvissa sem grúfir yfir þeim sem ætla sér að stunda veiðarnar á grundvelli þessarar lagasetningar. Það er kannski það sem við höfum helst fundið að þessu, við höfum sagt: Við skulum skoða þetta mál opnum huga. En það verður ekki gert með einhverri fljótaskrift núna á þessum dögum og þess vegna er skynsamlegast, eins og við leggjum til í nefndaráliti, að núna verði úthlutað byggðakvótanum og síðan verði sett niður alvöruvinna við að skoða þá hugmynd sem hér er verið að leggja fram.

Þetta er auðvitað óvissa og þetta hefur líka það í för með sér að þeir sem hafa orðið að leggja í fjárfestingu, meiri eða minni, vita ekki hvað þeirra bíður eftir að tilraunatímabilinu lýkur 1. september nk. Það er alveg ljóst mál að þeir sem ekki eiga báta og þeir sem ekki hafa átt búnað, handfærabúnað, þurfa að leggja í fjárfestingar. Það liggur fyrir núna og það hefur komið hérna fram að bæði verð á bátum og búnaði hefur hækkað og það er ósköp eðlilegt vegna þess að nú er andlag fiskveiðiréttarins ekki lengur kvóti heldur bátur og það gerir það auðvitað að verkum að þetta tvennt, báturinn og búnaðurinn hækkar í verði. Það er það sem liggur að baki þegar við sem skrifum upp á nefndarálit meiri hlutans segjum að að baki þessu hlýtur að liggja fjárfesting sem verður í fullkominni óvissu 1. september því að við vitum auðvitað ekki hver reynslan verður. Auðvitað vona allir að þetta verði góð reynsla en það vitum við ekki og það er ekki mikil sannfæring af hálfu meiri hluta nefndarinnar um að þetta verði góð reynsla því að þeir telja sjálfir að þessi mál þurfi að skoða (Forseti hringir.) í samfélagslegu samhengi með miklum rannsóknum eins og kemur fram í meirihlutaáliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.