137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við gætum farið í lærðar umræður og langar um kosti og galla dagakerfisins í samanburði við sóknarkerfi. Hvort tveggja hefur náttúrlega sína kosti og galla og lærdómarnir sem af hvoru tveggja má draga geta verið ýmsir.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson talar í gátum og skýrir ekki mál sitt nánar, það er erfitt að ræða við menn sem tala í gátum. Ég hins vegar segi bara eins og er að reynslan er dýrmætur kennari og í þeirri stöðu sem við erum núna þá kveikir þetta fyrirkomulag, þetta strandveiðifyrirkomulag sem hér er til umræðu, von í byggðunum. Við finnum það á viðbrögðunum við þessu frumvarpi hvílík eftirvænting er í gangi og ég held að allir nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafi orðið þess varir að þarna sjá menn virkilega möguleika á bættri afkomu og betri lífskjörum um tíma.

Hrakspárnar sem hér eru fluttar og spádómarnir um ördeyðu og jafnvel opinn dauða fyrir sjófarendur og þess háttar, ég vona að ekkert af því rætist. Við verðum bara að vona að ekkert af þeim hrakspám komi fram en komi vankantar í ljós, eins og ég sagði áðan, þá er sjálfsagður hlutur að sníða þá af. Enda, sem betur fer, gefst okkur ekki langur tími til að meta reynsluna af þessu kerfi. Að vísu eru kostir og gallar fylgjandi því að hafa stuttan tíma. Ég tel að það sé reyndar ekki til bóta fyrir þetta fyrirkomulag hvað hefur dregist að afgreiða það í sumar. En engu að síður ætti sá tími sem fram undan er þó að vera nægjanlegur ef afgreiðsla málsins dregst ekki von úr viti.