137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hef kosið að kveðja mér aftur hljóðs um þetta mál vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að gera tilraun til þess að fá hæstv. ríkisstjórn til að skilja að þetta frumvarp getur aldrei haft aðrar en neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg þegar upp verður staðið og um leið alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenskt þjóðlíf.

Ég hjó eftir því og það hefur ítrekað komið fram í ummælum þeirra hv. þingmanna sem mælt hafa fyrir þessu frumvarpi og mæla því bót, þeir hafa haft á orði að þetta frumvarp sé til þess fallið að vekja von þar sem engin von var, að auka möguleika manna til þess að bjarga sér og sínum. Því er alveg öfugt farið. Verði þetta frumvarp að lögum, fari menn þá leið sem hér er boðuð er augljóst að það mun ekki ganga eftir. Það er það sem öll reynsla okkar af fiskveiðum á Íslandsmiðum kennir okkur og tilraunir okkar til að stjórna þessu kerfi og þessum veiðum. Af hverju? Vegna þess að það er svo augljóst og má öllum vera augljóst sem hafa á annað borð lagt það á sig að skoða þessi mál, að með því að fjölga þeim skipum sem notuð eru til að veiða þetta magn af fiski sem við getum náð í, með því að við gerum það á fleiri bátum er verið að auka og hækka útgerðarkostnaðinn. Hvernig í ósköpunum má það vera að sumum hv. þingmönnum detti það í hug að með því að auka útgerðarkostnaðinn á Íslandsmiðum séu þeir að kveikja vonir hjá þeim sem stunda sjóinn, að verið sé að bjóða von þar sem engin var, að verið sé að auka möguleika manna til þess að bjarga sér og sínum?

Það sem þetta gerir er akkúrat öfugt. Þetta mun leiða til, fari menn þessa leið, að fleiri bátar verða notaðir til að sækja sama magn af fiski. Það er þess vegna ástæða til þess að koma hér upp og reyna einhvern veginn að fá hv. þingmenn, sem ætla sér að knýja þetta í gegn á þessum hraða, til að líta nú til baka, skoða söguna, skoða tilraunirnar sem gerðar hafa verið, skoða það hver afraksturinn var, hver niðurstaðan var, áður en lengra er haldið. Það var þess vegna, frú forseti, sem ég kallaði eftir því að heyra skoðanir hv. varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á þeirri reynslu sem nú þegar liggur fyrir af því þegar við höfum opnað kerfið með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Svörin sem ég fékk voru þau að ég talaði í gátum, það væri gátutal að spyrja hv. þingmann um reynsluna sem af þessu hefur hlotist. Hvaða gáta skyldi það nú vera? Skyldi þetta vera gátan um það hvers vegna það gerðist þegar við opnuðum fyrir smábátakerfið á sínum tíma að það hafi fjölgað svo bátum á sjó, smábátum, þannig að til voða horfði fyrir veiðarnar? Skyldi það vera sú gáta sem hv. þingmaður var að velta fyrir sér að lesa mætti úr máli mínu? Skyldi það vera gátan um það hvers vegna við fórum út úr skrapdagakerfinu, hvers vegna óheftur aðgangur að auðlindinni leiddi ekkert annað en ógæfu yfir þjóðina? Skyldi það vera sú gáta, frú forseti?

Skyldi það vera gátan um það hvers vegna það er lykilatriði fyrir okkur Íslendinga að byggja fiskveiðar okkar á þó því kerfi sem snýr að séreignarréttinum, hvort sem menn gera það síðan á grundvelli aflamarks, eins og við gerum, eða hvort menn nota einhvers konar sóknarmarkskerfi, um það geta menn deilt. En reynslan af því að opna kerfið með þessum hætti eins og hér er lagt til liggur alveg fyrir, það þarf ekkert að prófa þetta. Það þarf bara aðeins að spyrja sjálfan sig um söguna. Eða, enn og aftur: Þegar menn horfa til þess hvernig er lagt upp með þetta í frumvarpinu, þegar menn velta fyrir sér hvernig þetta kerfi er hljóta menn að sjá hvers lags vitleysu stefnir í, að sjávarútvegsráðherra á einu sinni í mánuði, þegar búið er að veiða það mikið magn á hverju svæði, að lýsa yfir að veiðum verði hætt.

Fyrsta árið er þetta kannski ekkert svo voðalega slæmt. Þá er bara ákveðinn fjöldi báta sem eru á lausu núna strax þegar veiðar hefjast þannig að þetta verður allt í lagi. Á næsta ári, hvað halda menn að þá hafi gerst? Þá hafa auðvitað margir þeir sem á horfðu og sáu að það myndaðist hagnaður hjá þeim sem voru að veiða á þessu ári hugsað með sér: Ég ætla að vera með í þessu. Þá fjölgar bátunum kannski eilítið, kannski mikið, og hvað gerist þá? Þá fækkar dögunum sem má veiða á hverju svæði. Svona gengur þetta koll af kolli og þetta þekkjum við. Við þekkjum nákvæmlega hvernig þetta virkar. Það verða bara ólympískar kappveiðar og hvort sem það eru stór eða lítil fyrirtæki sem nýta sér þetta eða bara einstaklingarnir og einyrkjarnir má augljóst vera að það verða fleiri bátar sem sækja sama aflann. Þjóðhagslega er þetta því óhagkvæmt og það sem verra er og það sem mér finnst menn einhvern veginn algjörlega horfa fram hjá, hv. þingmenn sem vilja koma þessu máli í gegn, er það sem verður síðan endaniðurstaðan: Þeir sem fara inn í þetta kerfi, trúa á þessa svokölluðu von sem þeir telja að það feli í sér að fjölga bátum til að veiða sama fjölda fiska, en í framtíðinni mun það auðvitað gerast að með því að dagarnir verða skornir niður standa menn uppi með fjárfestingar sem þeir hafa lagt í sem annaðhvort verður að bæta þeim upp úr ríkissjóði eða að menn bera hallann sjálfir, af því að þetta mun alltaf leiða til þess að bátunum fjölgar, nema hvað?

Það er þess vegna sem ég segi: Við erum að taka skef aftur á bak með þessari tillögu, það er bara þannig, þetta er skref aftur á bak. Þetta er skref í þá áttina að neita að horfast í augu við þann lærdóm sem við getum haft af reynslunni, þetta er skref frá skynsamlegri nýtingu náttúruauðlindarinnar, sjávarútvegsins. Þetta er skref frá því sem við þó vitum að við verðum að gera, sem er að auka afraksturinn af þessari auðlind, en þetta er skref í áttina að meiri útgerðarkostnaði. Þetta er skref í áttina að því að auka óvissu í greininni og þetta er skref í áttina að því að draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta er óheillaskref sem hér á að stíga.