137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur þess er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum vegna breytinga á samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til minni háttar breytingar á heimild til greiðslu álags vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt til hagsbóta fyrir kaupendur fjárskiptafjár.

Það er ástæðulaust að hafa langt mál um þetta nefndarálit. Um það var mikil samstaða og nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, frá Bændasamtökum Íslands, Landssambandi sauðfjárbænda og Landssambandi kúabænda.

Breytingar á búvörusamningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar voru undirritaðar 18. apríl sl. Þær fela í sér samningsbundna eftirgjöf af hálfu kúa- og sauðfjárbænda af fullum fjárframlögum í tvö til þrjú ár vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisbúskapnum. Á móti fá kúa- og sauðfjárbændur tryggingu fyrir framlengingu samningstímabilsins í tvö ár, sem vonandi og væntanlega leiðir þá til aukins rekstraröryggis.

Nefndin stendur einhuga að stuðningi við frumvarpið sem hún leggur til að verði samþykkt óbreytt en minni hluti nefndarinnar mun þó engu að síður skila séráliti.