137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fyrirspurnin er til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Í gær upplýsti hún í viðtali á mbl.is að lánshæfismatsfyrirtæki hefðu verið búin að taka með í reikninginn þann samning sem ríkisstjórnin hefur gert varðandi Icesave-skuldbindingarnar. Ég spyr: Hvernig veit hv. þingmaður að lánshæfismatsfyrirtækin eru búin að taka það með í reikninginn varðandi mat sitt á Íslandi fyrir fram? Ekki vissi þingið að þessarar niðurstöðu væri að vænta og taldi raunar að niðurstaðan yrði mun skárri en raun varð á, það taldi ég svo sannarlega. Hvers vegna telur hv. þingmaður að lánshæfismatsfyrirtækin veiti þetta? Hefði að mati hv. þingmanns ekki verið ráð að heyra að minnsta kosti hljóðið í þessum fyrirtækjum fyrir fram varðandi hver þau teldu að kynnu að verða áhrifin af slíkum samningi? Jafnvel hinir áhættusæknu íslensku bankar stunduðu það þegar þeir réðust í verulegar skuldbindingar að ræða fyrst við lánshæfismatsfyrirtækin til að spyrja þau ráða hvaða áhrif þær kynnu að hafa.

Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli vegna þess að eins og komið hefur fram er lánshæfi íslenska ríkisins nú einu stigi fyrir ofan svokölluð junk bonds eða ruslbréf, og falli það stiginu neðar eru mjög margir fjárfestar, bankar og stofnanir hér á landi og erlendis sem mega einfaldlega ekki fjárfesta í íslenskum bréfum. Það sama mundi þá væntanlega eiga við um öll íslensk fyrirtæki því að yfirleitt er ekkert fyrirtæki ríkis með hærra lánshæfismat eða betra en ríkið sjálft. Þetta er mjög stórt atriði og væri mjög fróðlegt að heyra hv. þingmann útskýra hvaðan hún hefur þessa vitneskju.