137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnar í það sem haft var eftir mér á mbl.is í gær í tilefni af því að lánshæfismat Íslands kolféll sl. haust og fram eftir vetri og stendur nú í BBB með neikvæðum horfum. Er í því mati tekið tillit til fjölmargra atriða, þar á meðal skuldastöðu ríkissjóðs, skuldastöðu fyrirtækja í eigu ríkissjóðs og þeirra ríkisábyrgða sem fyrir liggja, þar á meðal yfirlýsingum um að Íslendingar ætli að axla ábyrgð á þessum Icesave-skuldum. Flóknara er það nú ekki. Það eru þær upplýsingar sem ég hef og ég vil vekja athygli þingmannsins á því að á heimasíðu Seðlabankans eru talin ein átta eða níu atriði sem notuð eru til að leggja mat á lánshæfismatið. Það er alveg ljóst að ástæða lækkandi mats sl. haust var aukin skuldsetning ríkissjóðs vegna falls bankanna en líka óvissan um þróun efnahagsmála vegna þess að óvissa m.a. um skuldastöðu getur haft áhrif á að lánshæfismatið verði neikvætt og horfurnar neikvæðar.

Nú er ákveðinni óvissu eytt. Lagður verður fram samningur sem eyðir óvissu um skuldastöðu ríkissjóðs að þessu leyti. Það er ljóst að ríkissjóði verður hlíft við greiðslum næstu 7 árin á þeim tíma sem mikið mun mæða á ríkissjóði vegna annarra skulda. Þess vegna er það mat manna að þessi samningur geti ekki gert annað en létt og lyft lánshæfismatinu (Gripið fram í.) og það var það sem ég sagði á mbl.is í gær.