137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Forseti. Mér þykir skjóta nokkuð skökku við þegar hv. þingmaður talar annars vegar um matsfyrirtækin sem raunverulegan dómstól um mat á lánshæfisstöðu íslenska ríkisins en gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að þeir hafi kynnt sér málin sl. haust. Það er alveg ljóst og skjalfest í öllum þeim pappírum sem til eru frá því að lánshæfismat Íslands féll sl. haust að það var ekki síst vegna mikilla skulda bankanna, vegna ábyrgðar bankanna, þær voru taldar ríkissjóði til álitshnekkis og til þess fallnar að lækka lánshæfismat ríkissjóðs. Hvers vegna? Vegna þess að talið var að ríkið bæri ábyrgð á þeim skuldbindingum. Þegar íslenska ríkið lýsti því síðan yfir að það mundi gera það var það auðvitað skjalfest. Það var sl. haust og það veit hv. þingmaður.

Það sem ég er að segja er að Íslendingar tóku ábyrgð á þessum 660 milljörðum kr. sl. haust. Það sem nú liggur fyrir er hvernig sú ábyrgð verður öxluð. Hún verður borguð með eignum Landsbankans. Mismunurinn fellur á ríkissjóð. Það er auðvitað alveg rétt. En það er enginn sem efast um að það verður eitthvað lægri fjárhæð en upphaflega stóð til og það væri kannski athugunar vert að hugsa sér hvaða áhrif það hefði á lánshæfismat ríkisins ef leið hv. þingmanns yrði farin og Íslendingar hreinlega neituðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og semja vegna Icesave-málsins. Ég sé ekki hvað annað er í stöðunni ef þingmaðurinn heldur því fram að samningur sem léttir af óvissu um þessa skuldabyrði og skuldastöðu á að eyðileggja lánshæfismat Íslendinga, þá veit ég ekki hvað aðferð hv. þingmanns mun gera við lánshæfismatið.