137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns að það var ánægjulegt að sjá Halldór Ásgrímsson í sjónvarpinu í gær. Ég hafði ekki séð Halldór að ég held í nokkur ár fyrr en ég sá hann í sjónvarpinu í gær. Það var í sjálfu sér mjög ánægjulegt. Ekki kom mér það sérstaklega á óvart að hann taldi gott að vera innan Evrópusambandsins, ég hef heyrt hann segja það áður.

Formenn Framsóknarflokksins síðustu ár hafa beitt sér fyrir mikilli umræðu innan flokksins og látið fara fram mikið starf innan hans til að fjalla um Evrópumál. Halldór er einn af þeim. Jón Sigurðsson gerði það einnig og Guðni Ágústsson. Og nú er nýr formaður tekinn við og Evrópumálið fékk ákveðna lendingu innan Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi. Það mál hefur því fengið mjög vandaða umfjöllun innan flokksins og er komið nú eins og allir vita í þingsályktunartillögu inn í utanríkismálanefnd. Afstaða Framsóknarflokksins eða þingmanna hans á þessu þingi liggur alveg fyrir núna, hvernig eigi að fara með þetta mál. Við viljum setja það í vandaðan og ítarlegan farveg þannig að ekki verði flanað að neinu í þessu mikla máli.

En ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að fyrrverandi formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, hefur í gegnum árin haft þá trú að við ættum að skoða vandlega inngöngu í Evrópusambandið. Eins og menn vita sjálfsagt sem þekkja söguna fékk það ekki hljómgrunn innan flokksins á þeim tíma. Nú höfum við tekið ákvörðun um það eftir ákveðnum leikreglum að standa að athugun á þessu máli. Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessari spurningu þingmannsins öðruvísi en svo að Framsóknarflokkurinn hefur eins og alltaf unnið heimavinnu sína afar vel og hefur lagt fram núna tillögu um hvernig standa beri að því að skoða mögulega aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Og við stöndum að sjálfsögðu við það og fylgjum okkar flokksþingssamþykkt.