137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað alltaf þannig þegar fólk hættir í stjórnmálum að þá getur það leyft sér að tala skýrar en menn þurfa stundum að tala þegar þeir gegna vissum ábyrgðarstöðum í flokkum. Það er alveg ljóst að Halldór Ásgrímsson hefur kosið að tala mjög skýrt og hann gerði það í fjölmiðlum í gær. Þegar hann var formaður í Framsóknarflokknum færði hann flokkinn talsvert í áttina að Evrópusambandinu, ég held að engum blandist hugur um það.

Það fór fram mjög mikil vinna á vegum flokksins við að skoða kosti og galla við inngöngu og Halldór leiddi þá vinnu um talsvert skeið. Hann spáði því t.d. að Ísland yrði komið í Evrópusambandið í kringum árið 2015. Það gerði hann á fundi hjá Viðskiptaráði og þetta þóttu stór tíðindi á þeim tíma. Þetta eru ekki stór tíðindi í dag og getur bara vel verið að þessi spá rætist hjá Halldóri Ásgrímssyni. En við höfum tekið mörg skref. Á miðstjórnarfundi fyrir jól samþykkti Framsóknarflokkurinn að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú leið var ekki uppi á borðinu í janúar. Við teljum núna að það sé óþarfi að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, við viljum aðildarviðræður með ákveðnum skilyrðum og nú er verið að skoða það mál í utanríkismálanefnd.

Í mínum huga er það aðalmálið að leyfa fólkinu í landinu að taka afstöðu til samningsniðurstöðunnar þegar hún er komin. Þá rennur stóra stundin upp. Það er þá sem fólkið í landinu fær tækifæri til að segja: Já, þetta er fínn samningur, við förum inn. Eða: Nei, þetta er slakur samningur, við viljum vera fyrir utan. Stóra stundin er ekki núna í sumar, virðulegur forseti, stóra stundin er þegar samningsniðurstaðan liggur á (Forseti hringir.) borðinu.