137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er óneitanlega upplýsandi og skemmtileg umræða. Ég á svolítið bágt með að skilja hvort hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Siv Friðleifsdóttir séu í sama flokki. En það er þeirra vandi en ekki minn. Hins vegar liggur það alveg fyrir þó að Framsóknarflokkurinn hafi verið á harðahlaupum frá eigin stefnu í Evrópumálunum um nokkurra vikna og mánaða skeið, og væntanlega á harðahlaupum frá arfleifð fyrrverandi formanna sinna, hvort sem þeir heita Halldór Ásgrímsson, Jón Sigurðsson, Valgerður Sverrisdóttir eða eitthvað annað, þeir fjölmörgu formenn sem leitt hafa Framsóknarflokkinn á undanförnum árum, að þá veit ég ekki betur en að stefna flokksins sé sú eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, að sækja um aðild og fara í aðildarviðræður og leggja það svo í dóm þjóðarinnar. Ég hef reyndar ekki skilið hv. núverandi formann Framsóknarflokksins með sama hætti og ég skil hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, en það er eitthvað sem Framsóknarflokkurinn þarf væntanlega að vinna í, eru svona tjáskipti á milli aðila í þingflokknum (Gripið fram í.) og að hreinsa aðeins til í stefnunni.

En það sem mér fannst reyndar merkilegast fyrst þetta viðtal við Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, var gert að umtalsefni að þar varði hann og er enn að verja það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans, hvernig var að því staðið. Það var ekki deilt um að það ætti að einkavæða bankana heldur hvernig það var gert og hann ver það enn að gulldrengir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks (Gripið fram í.) hafi fengið þessa banka á silfurfati með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðina.