137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

fundur í menntamálanefnd – viðvera forsætisráðherra.

[14:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég óska eftir að forseti beiti sér fyrir því að haldinn verði fundur í menntamálanefnd sem allra, allra fyrst. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talaði um það hversu mikilvægt væri að halda fund um þetta málefni sem allra fyrst. Ég hef setið tvo fundi í hinu mikla samráðsferli á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Karphúsinu og þar hefur m.a. komið fram að samstarf milli ríkis og sveitarfélaga um það til hvaða aðgerða á að grípa í skólamálum skipti mjög miklu máli. Það kom meira að segja líka fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt til aukins samstarfs. Það liggur fyrir og hefur legið fyrir nánast frá upphafi þings (Forseti hringir.) beiðni frá þremur þingmönnum í menntamálanefnd (Forseti hringir.) um að haldinn verði fundur. Ég hvet frú forseta (Forseti hringir.) til að beita sér fyrir því að fundurinn verði haldinn sem allra fyrst (Forseti hringir.) en ekki 30. júní.