137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:15]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta utandagskrármál til umfjöllunar enda varðar málið framtíðarsýn og sóknarfæri íslensks samfélags á óvenjukrefjandi tímum.

Ég vil beina sjónum mínum fyrst að nýtingu orkuauðlindanna og þeirri sýn að þar beri við allar ákvarðanir að hafa hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi sem þýðir að við verðum að gæta þess að ganga ekki á rétt og möguleika komandi kynslóða til að njóta, velja og hafna. Þeir sem aðhyllast hugmyndafræði frumkvæðis og frelsis einstaklingsins ættu að skilja þá hugmyndafræði mætavel sem hafnar því að opinberir aðilar eigi að taka fram fyrir hendur einstaklinga framtíðarinnar. Til að ekki sé gengið á auðlindir þarf sem sé að líta á það með sjálfbærum hætti. Sú sýn er smám saman að verða almennari í heiminum og gengur þvert á hinar hefðbundnu pólitísku línur. Almennt má segja að æ fleiri verði þeirrar skoðunar að leið sjálfbærrar nýtingar sé eina leiðin sem tryggir að jarðarbúar eigi sér einhverja framtíð yfir höfuð og að börnin okkar eignist börn sem hafa raunverulegt val og njóta gæða náttúrunnar og fjölbreyttra möguleika.

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar leggur okkur gríðarlega ábyrgð á herðar. Hún gerir þá kröfu að við hugsum alltaf um lengri framtíð. Í því skyni þarf að hverfa frá vanahugsun og lausnum fortíðar. Mannkynið ber ábyrgð á þróun loftslags heimsins og þarf að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur nú í fyrsta sinn gert grein fyrir þeim vilja sínum að draga úr losun í stað þess að fara fram á sérstakar undanþágur. Við viljum ekki hafa undanþágustimpil í loftslagsmálum lengur en við munum að sjálfsögðu gæta þess að íslensk fyrirtæki standi ekki verr að vígi en önnur fyrirtæki í Evrópu. Því stefnum við að því að skuldbindingar okkar í evrópska viðskiptakerfinu leysi hið svokallaða íslenska ákvæði alfarið af hólmi þannig að íslensk stóriðja sitji við sama borð og hin evrópska eftir 2012.

Frú forseti. Málshefjandi vildi líka ræða sérstaklega uppbyggingu stóriðju og er því rétt að víkja að því að strangari kröfur alþjóðasamfélagsins í loftslagsmálum gera það að verkum að verðmæti loftslagsvænnar orku í heiminum mun stóraukast. Þess vegna er enn meiri ástæða til þess en nokkru sinni fyrr að huga að því til hvers við ætlum að nýta okkur auðlindir í framtíðinni því að verðmæti þeirra munu væntanlega aðeins aukast. Við viljum ekki setja alla orkuna í eina gerð stóriðju. Það er einfaldlega óskynsamlegt.

Þingmaðurinn spurði sérstaklega um orkuöflun vegna nokkurra skilgreindra verkefna og þakka ég iðnaðarráðuneytinu fyrir að veita umhverfisráðherra þær upplýsingar. Ljóst er að öflunin er í sjálfu sér sterkt álitaefni og gildir til að mynda um Helguvíkurálverið sem hefur þegar samið við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um orku fyrir 1. áfanga en hluti þeirrar raforku ætti að koma frá Hverahlíðarvirkjun sem ekki liggur fyrir fjármögnun á. Alls er gert ráð fyrir 625 megavatta orku í þetta álver og er ljóst að ekki liggur öll orkan fyrir.

Varðandi álverið á Bakka hefur Alcoa lagt áherslu á að trygg raforka liggi fyrir vegna álvers af sömu stærð og Fjarðarál á Reyðarfirði. Mundi slík verksmiðja þurfa um 600 megavatta orku og ljóst er að ekki liggur fyrir hvaðan sú orka kæmi. Nokkrar rannsóknir hafa farið fram á svæðinu en ekki liggja fyrir neinir samningar um orkuna.

Varðandi netþjónabú Verne Holdings og netþjónabú Greenstone er það að segja að verkefnin eru orkufrek og byggja á svipuðum hugmyndagrunni, þ.e. félögin skapa aðstöðu hér á landi með húsnæði o.s.frv. en selja síðan erlendum notendum aðgang að vörsluþjónustu í verunum. Mjög erfitt er að áætla raforkuþörfina, hún yrði lítil til að byrja með en færi upp í 200 megavött á næstu 10 árum. Staðsetning liggur ekki fyrir en Verne hefur samið við Landsvirkjun um 25 megavött. Hreinkísilframleiðsla á vegum Strokks Energy, sem einnig var spurt um, miðar að því að byggja sólarkísilverksmiðju á Íslandi. Þar er rætt um þrjár mögulegar staðsetningar og eðli málsins samkvæmt hefur ekki verið gengið frá orkuöflun en þar er gert ráð fyrir vaxandi orkuöflun frá 50–150 megavöttum.

Ég ítreka að ég þakka iðnaðarráðuneytinu fyrir upplýsingar um einstök verkefni en það er eðlilegt þegar þrengir að á krepputímum, að við viljum grípa til allra möguleika á að auka atvinnu. Nú eru 17 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og það eitt út af fyrir sig er glæpur og sóun í senn. Leggjum því alla áherslu á að fjölga störfum hér og nú en gætum þess ávallt að það verði ekki til þess að fækka störfum á morgun né inn í framtíðina með því að ganga á höfuðstól náttúrunnar. Rauðgræn ríkisstjórn sér fyrir sér iðnaðar- og umhverfisráðherra sem samherja í uppbyggingu sjálfbærrar nýtingar orku og grænnar framtíðar.