137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda að hefja þessa umræðu og einnig hæstv. umhverfisráðherra fyrir þau svör sem hún gaf. Það er afar mikilvægt, eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra og reyndar öll ríkisstjórnin tali einum rómi. Það er mjög mikilvægt þegar talað er við atvinnuvegina í landinu, þegar talað er við fjárfesta, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, að komið sé fram af myndugleika, stöðugleika og festu og að ekki sé verið að gefa misvísandi skilaboð.

Í því ljósi vil ég minna á umræðu sem var ekki fyrri ríkisstjórn sæmandi, enda gekk ekki sérstaklega vel á því tímabili hjá hæstv. ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þegar stóriðjan hófst í Helguvík var mjög sérkennileg umræða á milli hæstv. umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra og reyndar annarra hæstv. ráðherra. Þann dag sem skóflustungan var tekin mættu þrír hæstv. þáverandi ráðherrar Samfylkingarinnar í fjölmiðla, hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, núverandi þingmaður Suðurkjördæmis, mætti til að taka skóflustunguna. Iðnaðarráðherra hló en umhverfisráðherra úr sömu ríkisstjórn grét. Það voru ekki skilaboðin sem fjárfestarnir þurftu að heyra. Það eru ekki skilaboðin sem fólkið sem er atvinnulaust þarf að heyra. Fólkið þarf að heyra að ríkisstjórnin standi einhuga að baki hverri einustu fjárfestingu sem verður til að fækka atvinnulausum. Ég tek undir með hæstv. umhverfisráðherra, hvort sem atvinnulausir eru 16 eða 17 þúsund sem nefndir hafa verið í pontu, (Forseti hringir.) þeir eru allt of margir og það er nauðsynlegt að við einhendum okkur í að finna atvinnu handa því fólki.