137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa utandagskrárumræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin þótt ég verði að viðurkenna að ég var ekki sérstaklega ánægð með þau. Ráðherra talaði um að mikilvægt væri að tala einum rómi og ég tek undir það. Þess vegna furða ég mig á því hvað þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn hinna mörgu stefna, með-og-á-móti ríkisstjórnin, getur ekki talað einum rómi.

Atvinnumálin eru brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna. Atvinnulausir fara að nálgast á annan tug þúsunda. Ríkisstjórnin talar um það á tyllidögum, í stefnuyfirlýsingum og áætlunum, að skapa þurfi 6 þúsund ný störf, þar af 2 þúsund í orkufrekum iðnaði. Hv. frummælandi las upp úr þjóðhagsspá ríkisstjórnarinnar, þjóðhagsspá fjármálaráðherra Vinstri grænna, þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdum í Helguvík, stækkun í Straumsvík og viðeigandi orkuöflun. Við höfum vanist því að skoðanir væru skiptar á milli flokka í ríkisstjórn en þarna eru tveir ráðherrar í sama flokknum, ráðherra umhverfismála og ráðherra fjármála, með ólíkar skoðanir. Á meðan þjóðhagsspáin kemur út virðist umhverfisráðherrann vera í fullu starfi við að senda þau skilaboð út að ekki verði um neina orkuuppbyggingu að ræða. Ég vil því spyrja t.d. varðandi framkvæmdir í Neðri Þjórsá: Hvar standa þau mál, varðandi skipulag hreppanna sem virðist vera frosið í umhverfisráðuneytinu?

Síðan vekur athygli þegar ný loftslagsstefna umhverfisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar er kynnt að þar eru hnattræn viðmið höfð að leiðarljósi, að Ísland skipi sér í hóp þeirra ríkja sem vilja ná metnaðarfullu hnattrænu markmiði í loftslagsmálum vegna þess að við viljum ekki hafa undanþágustimpilinn. Er ekki metnaðarfyllsta markmiðið í þessum efnum (Forseti hringir.) að nota hreina endurnýjanlega orku (Forseti hringir.) til uppbyggingar atvinnu hérlendis en stuðla að uppbyggingu og notkun ekki eins hreinna orkugjafa (Forseti hringir.) í öðrum löndum?