137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru augljós sannindi að við lifum mikla óvissutíma, bæði á Íslandi og í heiminum öllum, óvissutímakreppu. En það eru nokkrir hlutir sem við vitum í allri óvissunni, við Íslendingar. Við vitum að við búum að alveg einstakri og stórfenglegri náttúru, náttúruperlum og dýrmætum auð sem er ábyrgð okkar og skylda að vernda til langrar framtíðar.

Við vitum líka, eins og hér hefur komið fram, að við erum einstaklega auðug og heppin að búa að ríkum endurnýjanlegum orkugjöfum og þar hvílir okkur líka mikil skylda og ábyrgð á herðum, hvernig við nýtum þessa orkugjafa og til hvers. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti það vel í sinni kosningabaráttu fyrir síðustu kosningar að hann ætlaði að byggja æ fleiri álver. Hér er talað um orkufrekan iðnað og það er nokkuð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn situr enn við sama keip varðandi uppbyggingu álvera. Við skulum taka þau sem dæmi um hvort það sé góð nýting á okkar stórkostlegu orkugjöfum.

Talandi um loftslagsskuldbindingar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að ef allir væru eins og Íslendingar væri ekkert loftslagsvandamál. Það er rangt. Við nýtum okkar stórfenglegu orkugjafa í mengandi iðnað og ef við höldum því áfram munum við ekki geta staðið við okkar alþjóðlegu skuldbindingar í loftslagsmálum. Þá er spurningin: Ætlum við að vera metnaðarfull og framsækin í þessum efnum eða ekki? Þetta er einhver dýrasta fjárfesting fyrir hvert starf sem um getur. Efnahagslegur ávinningur af þessu er mjög vafasamur eða spurningum undirorpinn því að gróðinn fer beint úr landi og svo mætti lengi halda áfram. (Forseti hringir.) Það er rangt sem hér hefur komið fram að hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) ætli sér ekki að leita í sameiningu að orkuuppbyggingu, uppbyggingu á þessum grunni. (Forseti hringir.) En sú uppbygging á að vera græn, umhverfisvæn og framsækin og haldast í hendur (Forseti hringir.) við metnaðarfulla vernd íslenskrar náttúru.