137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Skynsamleg auðlindastjórn er hagkvæm nýting á náttúruauðlindunum. Ég er með fyrirspurn á eftir til hæstv. umhverfisráðherra þannig að í þessari ræðu ætla ég ekki að fara út í loftslagsmálin enda tími markaður í það á eftir.

Í auðlindarétti verður að hafa hugfast að hin síðari ár hafa skapast ný réttindi þar sem ekki er alveg á hreinu hvaða eignarréttindum þau tilheyra. Þar er ég að tala um kvóta í sjávarútvegi, loftslagsheimildir og kvóta í landbúnaði. Þessi nýju réttindi eiga það sameiginlegt að til þess að vera virk þurfa stjórnvöld að úthluta þeim eftir ákveðnum reglum og eftir þeim reglum sem stjórnvöld sjálf setja.

Oftar en ekki er atvinnureynsla í viðkomandi atvinnugrein notuð sem viðmið við úthlutun gæðanna. Það var sérstaklega athyglisvert að heyra hér orð fyrrverandi umhverfisráðherra sem er í Samfylkingunni — og ég vil benda á að Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn í bráðum þrjú ár — það var eins og hv. þingmaður vissi ekki að hér hafi verið gerðar ráðstafanir varðandi það að byggja upp stóriðju og álver án þess að nein orka sé til staðar. Ég man það bara sem áhorfandi að því þegar iðnaðarráðherra stóð í Helguvík og tók þar skóflustungu að álveri að þá var umhverfisráðherra uppi í umhverfisráðuneyti og þóttist ekki kannast við neitt.

Hér kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra ættu að haldast í hendur. Ég legg til að þessi embætti verði bæði lögð niður og tekið verði upp ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála því að þessi mál eru svo tengd á auðlindaréttarlegum forsendum að þetta á að verða nýtt ráðuneyti sem (Forseti hringir.) t.d. olíuauðlindirnar og aðrar auðlindir Íslands koma inn í hönd í hönd við umhverfismál.