137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona bara að sem flestir hafi fylgst með þessari umræðu því að þegar við höfum hlustað á stjórnarliða getum við ekki komist að annarri niðurstöðu en að hér séu mjög alvarlegir hlutir í gangi. Það er ekki nokkur leið að greina það eftir að hafa hlustað á ráðamenn hér að menn séu sammála um það sem stendur að sé eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnin ætli að fara í. Ég byrjaði að lesa úr gögnum og áætlunum fjármálaráðuneytisins. Í grunnspá er gert ráð fyrir því að fara eigi í álver í Helguvík og stækka í Straumsvík. Er einhver hér inni sem kemst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa hlustað á stjórnarliða að það eigi að standa við það?

Fyrrverandi umhverfisráðherra hlær. Það er nefnilega orðið þannig að Samfylkingunni finnst margt svolítið fyndið sem öðrum finnst ekki. (Gripið fram í.) Hér finnst okkur held ég ekki fyndið að fólk sé atvinnulaust. Okkur finnst ástandið í þjóðlífinu ekki fyndið. (Gripið fram í.) Við trúðum því að þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, ætlaði að vinna í því … (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Það er gott, virðulegi forseti, að þetta fer ekki í taugarnar á hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Við skulum vona að hér verði gengið í það að fylgja eftir þeim fyrirætlunum sem búið er að lofa. Ég vil fá staðfestingu frá hæstv. umhverfisráðherra, hún svaraði því ekki skýrt, ég vil fá staðfestingu á því: Mun hæstv. umhverfisráðherra beita sér fyrir því að þær fyrirætlanir — ég er ekki að tala um það sem hæstv. iðnaðarráðherra talaði um, við skulum bara byrja á Helguvík og Straumsvík — ætlar hæstv. umhverfisráðherra að standa við þær fyrirætlanir? Því það er algjörlega ljóst að það verður ekki gert nema hæstv. umhverfisráðherra spili þar með. Við þekkjum það að umhverfisráðherrar hafa komið í veg fyrir störf (Forseti hringir.) fram til þessa, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) og ég fer fram á það að … (Gripið fram í: … í pontu.) Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er gott að það er lífsmark með sumum hér inni en það kemur hins vegar nokkuð niður á ræðum.

Aðalatriði málsins er þetta: Þegar við höfum hlustað hér á hv. stjórnarþingmenn geta menn ekki komist að annarri niðurstöðu en að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sé algjörlega klofin í þessum málaflokki. Við skulum fylgja þessu máli eftir því að (Forseti hringir.) það er mjög mikilvægt að fólk verði ekki atvinnulaust áfram vegna sleifarlags ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.)