137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það stundum í umræðum um þessa svokölluðu fyrningarleið að hún var í sjálfu sér ekkert annað en ódýrt lýðskrum fyrir kosningar, ódýr kosningabrella, en það góða við svona byltingarkennda hugmynd er að við fáum málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegs og um fiskveiðistjórnarkerfið. Þessi leið er hins vegar kolófær og verður aldrei farin. Hún hefur sett mikla óvissu að sjávarbyggðum og þeim sem standa í sjávarútvegi víða um land. Afleiðingar þess eru orðnar augljósar þar sem bátar eru hættir að komast á sjó sem eru beinar afleiðingar þessarar stefnu vinstri flokkanna þar sem fyrirtæki eru farin að minnka umsvif sín úti á landi vegna þessa.

Annað alvarlegt sem er að gerast líka eru þessar svokölluðu strandveiðar. Minni hlutinn skoraði á meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í morgun að breyta því máli fyrir 3. umr. Ég vil koma því til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) að breyta því máli þannig að við byggðakvótanum sem nú er loksins að nást (Forseti hringir.) meiri sátt um en verið hefur verði ekki hróflað í þessu tilraunabixi (Forseti hringir.) vinstri flokkanna í sjávarútvegsmálum.