137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

hvalveiðar.

64. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa strax til kynna að hann ætli að halda hvalveiðum áfram. Ég tel hvalveiðar mjög mikilvægar. Þær fara vel saman við ferðaþjónustu. Ferðamaðurinn getur skoðað hvalinn lifandi. Síðan minnist ég þess í gamla daga að ferðamenn voru mjög uppteknir af því að sjá hvalskurð og þótti það mjög merkilegt. Auk þess eru hvalveiðar atvinnuskapandi og þar sem hæstv. ráðherra er núna að fjalla um afkomu ríkissjóðs þá vil ég benda á það að hvert einasta starf sem myndast við hvalskurð og hvalveiðar fjölgar skattgreiðendum og fækkar fólki sem þiggur atvinnuleysisbætur frá ríkinu. Það eykur sem sagt tekjur ríkisins og minnkar gjöldin og lagar stöðu ríkissjóðs miklu frekar en skattahækkanir sem menn eru mikið að tala um, eða skerðing á velferðarkerfinu.