137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

hvalveiðar.

64. mál
[15:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki miklu nær um afstöðu hæstv. ráðherra. En kannski skýrir hann það aðeins betur á eftir.

En ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að atvinnugreinin fái tækifæri til að starfa í eðlilegu umhverfi og starfa áfram. Það er gott að heyra að ráðuneytið haldi rétti landsins og skoðunum eða sjónarmiðum á lofti opinberlega. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Ég velti fyrir mér hvað eigi að gera við þá vinnu sem kemur út úr þessari endurskoðun eða stöðu á breyttum forsendum sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Ég verð að viðurkenna það, hæstv. ráðherra, að ég hef ekki náð að kynna mér þetta frumvarp um hvali. Ég velti aðeins fyrir mér hvers vegna við erum að setja lög sérstaklega um hvali. Eru þeir ekki bara hluti af þeim dýrum sem við nýtum á Íslandi og við Ísland? Við nýtum mikinn lunda í Skagafirði, eins og hæstv. ráðherra þekkir. Eigum við þá að setja lög um lunda, ef hann er mjög …? (Sjútvrh.: Það eru lög um lunda.) Nú, eru lög um lunda? Þarna opinberaði ég þekkingarleysi mitt á því. En ég velti fyrir mér hvort það væri þannig að við þyrftum að setja sérlög um hvert kvikindi sem er við landið og á landinu.

En það eru mörg störf í kringum hvalveiðarnar og ég vil varpa því aðeins til hæstv. ráðherra hvort það sé ekki þá um að gera ef við erum að fara að endurskoða þessa hluti að kanna frekari úrvinnslu á hvalaafurðum. Þetta eru stórar og miklar skepnur og eflaust hægt að nýta þær betur. (Forseti hringir.) Einn 90 ára gamall frumkvöðull spurði mig hvort ekki væri hægt að nýta þessar skepnur í (Forseti hringir.) áburðarframleiðslu.