137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

efling þorskeldis.

65. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er önnur fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og nú er ég að velta fyrir mér eflingu þorskeldis. Það er í raun eðlilegt að þetta mál komi í framhaldi af því sem við ræddum áðan því að eins og við vitum éta hvalir mikið af æti í sjónum og gjarnan frá öðrum tegundum. Þeir hafa þar af leiðandi mikil áhrif á vöxt og framgang annarra tegunda í vistkerfinu í kringum landið. Sem betur fer hafa menn náð ágætum árangri í þorskeldi og það fer þannig fram að blessaður hvalurinn á ekki auðvelt með að komast í seiðin og það æti sem er nýtt í þorskeldinu. Ég sé fyrir mér að þorskeldi geti vaxið sem atvinnugrein en því miður segja þeir sem stunda þorskeldi og rannsóknir því tengdar og þeir sem vilja auka þessa framleiðslu að ekki sé nægilega stutt við bakið á þeim. Margt kemur eflaust til. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir eflingu þorskeldis hér á landi og ef svo er, hvernig ætlar hann þá að standa að því.

Það eru vitanlega nokkrar leiðir til að efla þorskeldi. Það er hægt að gera það t.d. með nýsköpunarstyrkjum þannig að þessir aðilar geti haft aukið svigrúm fjárhagslega til að stunda þessar rannsóknir. Síðan skiptir líka máli að þeir sem þetta stunda hafi nægar heimildir, þ.e. kvóta til að nota við starfsemi sína. Því er mikilvægt að ráðherrann segi til um hvort til standi að létta einhvern veginn undir með þeim sem þetta stunda.

Hvers konar eldi er til framtíðar litið mjög mikilvægt hvort sem við erum að tala um eldi í sjó eða á landi, bleikju og slíkt. Það er mjög mikilvægt að við glutrum ekki niður þeim tækifærum sem við höfum varðandi þorskinn. Við höfum bæði góða og slæma reynslu af eldi laxfiska og það er mikilvægt fyrir okkur að læra af því. En mig langar til að ráðherra komi upp, sem hann gerir vitanlega, og svari þessum spurningum mínum því að þarna eru sóknarfæri varðandi atvinnusköpun, þekkingu, menntun o.s.frv.