137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

efling þorskeldis.

65. mál
[15:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæðar hugrenningar, jákvæð svör varðandi þessa atvinnugrein og þá möguleika sem þar eru. Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar áðan að hér er um að ræða mikil tækifæri í nýsköpun í matvælaiðnaði og það eru sóknarfæri í þeirri þekkingu og tækni sem nýttar eru í þetta. Ég tel að það sé rétt sem hv. þingmaður sagði að við ættum að beita okkur fyrir því að hæstv. ríkisstjórn taki mál sem þetta inn í sinn mikla aðgerðapakka sem hlýtur að fara að líta dagsins ljós.

Ég vil líka í framhjáhlaupi taka undir með hæstv. ráðherra að það eru sóknarfæri í öðru eldi eins og bleikjueldi og er nauðsynlegt að við nýtum þá miklu þekkingu sem við eigum þar. Þar er mjög mikil reynsla. Við eigum þar mjög færa vísindamenn sem náð hafa miklum árangri. Við eigum að ýta undir rannsóknir og menntun á því sviði. Niðurstaðan eftir þessa stuttu umræðu er sú að það er vilji þeirra sem hér hafa talað að reyna að styðja við þorskeldi og reyna að efla það eftir bestu getu. Í fljótu bragði sýnist mér að það mætti gera m.a. með því að styrkja og standa betur við seiðaframleiðslu, seiðaeldi, mér skilst að þar sé helsti akkillesarhællinn, en einnig þarf að auka þann kvóta sem er í þorskeldinu.