137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

66. mál
[16:04]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir þá fyrirspurn sem hér er sett fram sem hljóðar svo: Hvaða vegaframkvæmdir á Vestfjörðum telur ráðherrann mikilvægastar og hvernig hyggst hann beita sér fyrir því að hraða þeim?

Mér dettur í hug, virðulegi forseti, hvort svarið geti ekki verið bara stutt og laggott: Allar þær framkvæmdir sem eru langt á eftir áætlun, vegir sem eru engan veginn boðlegir árið 2009. Það hef ég áður sagt og skal ítreka hér.

Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hvers vegna það er eða af hverju svona hægt hefur gengið á Vestfjörðum. Það er allt annað mál og skulum við ekki fara að rifja það upp núna. Aðalatriðið er að vinna þarf bug á þeim hindrunum sem þarna eru og þeim vegum sem þarna eru sem eru alls ekki samboðnir fólki árið 2009.

Þessu má samt sem áður raða svolítið upp og taka stærri áfangana. Ég tel mikilvægast að leggja áherslu á eftirfarandi kafla:

1. Kaflann frá Flókalundi til Þingeyrar, Vestfjarðaveg nr. 60 um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, en segja má að það sé einn af örfáum vegarköflum af stofnvegum á landinu sem ekki er hægt að halda opnum á veturna.

2. Kaflann sem hefur yfirleitt verið nefndur Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, þ.e. þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, vegurinn ofan við Teigsskóg, til að tengja við Þorskafjörðinn og svo aftur við þann kafla sem lauk í fyrra. Það mál er hins vegar hjá Hæstarétti. Umhverfismatið var kært og það bíður Hæstaréttar. Kannski kemur betur að því á eftir í annarri fyrirspurn. Í það verk hefur ekki verið hægt að fara vegna þess að málið var kært, dómur féll í héraðsdómi og málinu var vísað til Hæstaréttar.

3. Kaflann um Kjálkafjörð og Kerlingarfjörð.

4. Tengingu Drangsness með bundnu slitlagi við Hólmavík. Það verk er reyndar í hönnun og undirbúningi.

Öll þessi verk eru í undirbúningi en ekki er hægt að segja til um hvenær eða hvernig þau vinnast. Til þess eru aðstæður í ríkisfjármálum of óljósar. En við komum betur að því á eftir í annarri fyrirspurn sem er frá öðrum þingmanni úr þessu ágæta kjördæmi.

Ég vil segja það, virðulegi forseti, að í haust eða kannski fyrir verslunarmannahelgi lýkur framkvæmdum í Djúpinu, þ.e. Mjóafirði, þegar búið verður að steypa brúna og taka hana í notkun. Þá klárast líka, kannski eitthvað síðar, framkvæmdin við Arnkötludal. Þá fyrst, virðulegi forseti, haustið 2009 munu íbúar á norðanverðum Vestfjörðum geta keyrt á varanlegu slitlagi til Reykjavíkur. Það sýnir alvarleika málsins eins og ég hef áður sagt að það skuli vera haustið 2009 sem þetta loksins tekst.

Miðað við að allt gangi eftir verður þetta á hausti komanda. Bæði þau verk sem ég nefndi hér síðast eru töluvert á eftir áætlun vegna þess að ekki náðist að klára fyrra verkið með steypu í fyrrahaust og Arnkötludalurinn hefur tafist af öðrum ástæðum.