137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

66. mál
[16:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hæstv. samgönguráðherra hefur ríkan skilning á þeim vandamálum sem blasa við í samgöngum á Vestfjörðum. Ég tek undir með honum, það er fagnaðarefni að nú verður hægt að keyra alla leið til Ísafjarðar á bundnu slitlagi. Það er vissulega nýbreytni og mikil framför en segir hins vegar sitt um stöðuna árið 2009.

Þetta mál snýst auðvitað um að það þarf að tengja Vestfirði innbyrðis, og þar nefnir hæstv. ráðherra réttilega Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, og líka að tengja suðurfirði Vestfjarða einfaldlega við umheiminn með mannsæmandi vegi.

Ég saknaði þess dálítið að heyra engar tímasetningar í ræðu hæstv. ráðherra og vildi inna hann eftir þeim ef hann gæti nefnt einhverjar, (Forseti hringir.) t.d. varðandi Dýrafjarðargöng. Ég hef staðið í þeirri meiningu að þau séu á samgönguáætlun. Getur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kannski gefið einhverjar tímasetningar (Forseti hringir.) varðandi þau í ræðu sinni hér á eftir?