137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60.

68. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þau svör sem hér hafa verið gefin. Þau vekja manni ekki mikla von um að mikið gerist alveg á næstunni en þó svolitla von um að úr rætist að einhverju leyti.

Eins og við vitum hafa Vestfirðingar þurft að búa við áratuga vanrækslu samgönguyfirvalda varðandi samgöngur innan svæðisins og þá sérstaklega á þessum umrædda hluta vegakerfisins og þetta er auðvitað ekki boðlegt lengur. Þetta er, eins og hér hefur komið fram, farið að standa atvinnu- og búskaparháttum byggðarlagsins alvarlega fyrir þrifum. Leiðin suður um, sem ég hef nú spurt um, er einn vandi, annar vandi er vegurinn um Dynjandisheiði, sem er ófær stærstan hluta ársins, og bíður þess að verða byggður upp sem heilsársvegur til að taka við af fyrirhuguðum jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Sá vegur er ekki inni á neinum áætlunum og úr því þarf líka að bæta.

Hæstv. samgönguráðherra hefur sýnt það í verki, þann stutta tíma sem hann hefur verið með þennan málaflokk, þ.e. rúm tvö ár, að hann hefur vilja til að bæta fyrir ýmsar vanrækslusyndir forvera sinna og Vestfirðingar hafa notið góðs af því. Nú skora ég á hæstv. samgönguráðherra að gera allt sem í hans valdi stendur til að bjarga því sem bjargað verður í vegamálum á sunnanverðum Vestfjörðum því að við óbreytt ástand verður ekki unað lengur. Það blasir við.