137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60.

68. mál
[16:25]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem viðbót við þetta vil ég geta þess að þverun Þorskafjarðar — vegna þess að sá misskilningur hefur verið á ferðinni að þverun Þorskafjarðar hafi verið inni á samgönguáætlun, þar með löngu áætluninni sem var ekki samþykkt. Ég vil taka það skýrt fram að þverun Þorskafjarðar var aldrei inni á áætlun, ekki með eina einustu krónu á þeirri áætlun sem ég tók við, þannig að það sé alveg klárt. Hún fór hins vegar í gegnum umhverfismatið.

Ég þakka fyrir þessa umræðu en það þarf ekkert að brýna mig á því sem þarf að gera á Vestfjörðum eins og áður hefur komið fram. Ég sýndi það með fyrsta útboðinu — nú á næstu dögum hefjast vonandi framkvæmdir við kafla upp á 15 kílómetra. Verktakinn er Ingilaugur Jónsson ehf. Síðan er það kaflinn aftur í Gufudalssveit, 24 kílómetrar, sem er búinn að bíða allt of lengi, bíða þess að fara alla þessa leið í gegnum dómskerfið og þar voru peningar til. Þetta eru bara staðreyndirnar í þessu. Þetta eru þau lög sem hafa verið sett og eftir þeim þurfum við að fara.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir fyrirspyrjandi nefndi hér Dynjandisheiðina en í því sambandi vil ég geta þess að Vegagerðin hefur skoðað það mál og skoðað þá valkosti sem fyrir eru, valkostirnir eru einfaldlega þessir:

Hægt er að gera þarna jarðgöng, um 12 km, og mundu þau kosta í kringum 14 til 15 milljarða kr. Vegagerðin telur hins vegar að hægt sé að byggja mjög góðan veg yfir heiðina og það kosti í kringum 4 milljarða kr. Þetta eru hlutir sem voru m.a. til umræðu á ágætum fundi mínum í síðustu viku með stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og samgöngunefnd þar sem farið var yfir þessa þætti. Það er mikilvægt að halda því áfram og mun ég reyna að sjá um að það verði gert.