137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

malarvegurinn fyrir Melrakkasléttu.

76. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Það standa mörg spjót á hæstv. samgönguráðherra sem von er. Samgöngubætur snúast hreinlega um lífskjarabætur og eru í reynd mannréttindamál. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna samgöngumál fjærst höfuðborg Íslands, Reykjavík, í norðvestrinu, í norðaustrinu og suðaustrinu eru einmitt verst stödd. Er það tilviljun eða er eitthvert samhengi þar á milli?

Það er stórt orð, „þjóðvegur“, og þegar við landsmenn og erlendir ferðamenn, ef svo ber undir, förum um suma vegi hljótum við að spyrja okkur: Er komin ný öld eða erum við enn þá á þeirri síðustu og jafnvel þeirri þarsíðustu?

Þegar ekið er stofnveg, þjóðveg fyrir Melrakkasléttu finnst mér ég vera að fara reiðveg. Það er með hreinum ólíkindum að fólk í þessum landsfjórðungi, fólk sem býr og hefur búið mann fram af manni á Melrakkasléttu, hvort heldur er í dreifðum sveitum eða á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, svo ég nefni helstu þéttbýlisstaðina á þessu svæði, skuli hafa sýnt þá biðlund og þá þolinmæði í samgöngumálum sem raun ber vitni. Þessi vegur er að mínu viti einhver sá versti sem þekkist á Íslandi en heitir engu að síður þjóðvegur.

Enn og aftur vek ég athygli á þessu, frú forseti: Er það tilviljun að vegirnir fjærst höfuðborginni í norðvestri, í norðaustri og í suðaustri eru þeir verstu hér á landi? Er eitthvert samasemmerki þarna á milli? Ég spyr hæstv. samgönguráðherra fyrir hönd svo margra sem fara þennan veg á hverjum degi: Er fyrirhugað að gera endurbætur á malarveginum fyrir Melrakkasléttu, ef veg skyldi kalla?