137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

malarvegurinn fyrir Melrakkasléttu.

76. mál
[16:30]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þá fyrirspurn sem hér er sett fram þar sem borin er umhyggja fyrir malarveginum fyrir Melrakkasléttu og þeim sem þar um fara.

Á samgönguáætlun eru engar fjárveitingar til norðausturvegar fyrir Melrakkasléttu, Kópasker og Raufarhöfn. En hins vegar verður unnið að reglubundnu viðhaldi á umræddum kafla og á kaflanum frá Raufarhöfn að Hálsum og ekið í unnið malarslitlagsefni sem er til staðar en það er í kringum 1.600 m³.

Hv. þingmaður sagði að þennan veg gæti maður varla kallað veg og má alveg taka undir það. Við ræddum hér um vegi á sunnanverðum Vestfjörðum og ég hef sagt það áður og skal endurtaka það, virðulegi forseti, að það eru sennilega verstu vegir á Íslandi af þéttbýlisstöðum.

Þótt svarið varðandi veginn um Melrakkasléttu hafi verið eins og það var er samt sem áður verið að gera mjög mikið á þessu svæði. Eru það þá fyrst framkvæmdir um svokallaða Hófaskarðsleið eða veg 85 þar sem verklok eru áætluð 1. nóvember nú í haust.

Í öðru lagi er kafli sem boðinn var út og eru verklok áætluð á þessu hausti. Það er vegarkafli sem heitir Fremri Háls/Sævarland. Þá er það þriðji kaflinn í þeim stórkostlegu vegarbótum sem loksins er verið að gera á þessu svæði, þ.e. Raufarhafnarvegur, vegur 874, frá Hófaskarðsleið að Raufarhafnarflugvelli, um 14 kílómetra langur. Þar voru tilboð opnuð 15. apríl síðastliðinn og kom um 60% tilboð í verktakakostnað. Þar á lagningu slitlags að vera lokið 15. ágúst á næsta ári og vegkaflanum að fullu lokið 1. október 2010.

Virðulegi forseti. Það gera sér kannski ekki allir grein fyrir hvað verið er að gera þarna en loksins er sá áfangi að nást að vegurinn til Raufarhafnar og Þórshafnar verði kominn með varanlegt slitlag og í nútímalegt vegarsamband eins og við stefnum að að verði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þetta eru þær áherslur sem unnið hefur verið eftir og þess vegna var Raufarhafnarvegurinn boðinn út, við vildum koma með tengingu sem átti að vera til Raufarhafnar en þá verður komið nútímalegt vegarsamband þangað.

Vegabætur til Raufarhafnar hafa staðið lengi og ég minnist þess er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður á Raufarhöfn las fyrir mig fyrir síðustu kosningar ályktun frá Raufarhafnarhreppi sem var 25 eða 30 ára gömul og það virtist vera að ekkert hefði gerst í samgöngumálum þar á þeim langa tíma.

Við þetta mun vegalengdin styttast mjög. Leiðin frá Reykjavík til Raufarhafnar er í kringum 630 kílómetra löng núna, þ.e. ef farið er um Hvalfjarðargöng, Borgarfjarðarbrú, Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Tjörnes — ég vona að ég gleymi nú engu. Á milli Kópaskers og Raufarhafnar eru um 54 kílómetrar og sú vegtenging sem ég hef talað um, þ.e. Raufarhafnarleiðin, mun stytta leiðina að mig minnir um 20 kílómetra.

Virðulegi forseti. Þetta er svar við fyrirspurn hv. þingmanns um þetta landsvæði. Ég vildi óska þess að ég gæti veitt álíka svar við því sem við vorum að ræða áðan, þ.e. sett inn tímasetningar. En þarna hefur það tekist að setja þessi verk í gang vegna þess að þau hafa verið komin með heimild og farið í gegnum allan ferilinn þó að þar sé — ég tek það skýrt fram — við ákveðið vandamál að etja núna, þ.e. tenginguna við þjóðveg 85, þegar Hófaskarðsleiðin kemur niður á þjóðveginn rétt sunnan við Kópasker. Um það féll dómur í deilumáli í Hæstarétti ekki alls fyrir löngu þar sem Vegagerðin var dæmd frá því að fara þá leið sem hún ætlaði að fara og þarf því að finna sér nýja leið. Ég vonast til þess að það takist í viðræðum sem eiga sér stað um þessar mundir.