137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna.

84. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Frú forseti. Ég beini hér tveimur fyrirspurnum til hæstv. samgönguráðherra. Annars vegar um björgunarbúninga og hins vegar um eftirlit með öryggisfræðslu sjómanna.

Það eru liðin 22 ár frá því að menn settu reglur um það að björgunarbúningar yrðu settir í skip yfir tólf metrum. Það var gert árið 1987 og vil ég, með leyfi forseta, fá að lesa úr nokkuð merku blaði sem heitir Til sjávar, sem er fréttablað Siglingastofnunar og síðasta tölublað er helgað slysavörnum úti á sjó:

„Þann 22. maí 1993 var Andvari VE 100 að veiðum með botnvörpu í Reynisdýpi. Veður var vaxandi að austan og þungur sjór. Þegar hífa skyldi inn trollið festist það í botni með þeim afleiðingum að sjór komst í fiskmóttöku, spilrými og millidekk. Skipið fékk á sig slagsíðu sem jókst stöðugt svo skipverjar sáu sitt óvænna og klæddust björgunarbúningum. Einn skipverja hugðist sjósetja gúmmíbjörgunarbát en ekki gafst tími til þess áður þar sem skipið lagðist á hliðina og sökk mjög snögglega. Skipstjóri náði sambandi við Smáey VE sem var að veiðum skammt frá og setti strax stefnuna á slysstað. Allir skipverjar Andvara lentu í sjónum en eftir tæplega hálftíma volk náði áhöfnin á Smáey að bjarga þeim öllum um borð. Hefðu björgunarbúningar ekki verið komnir til sögunnar hefði varla þurft að spyrja að leikslokum.“

Þetta undirstrikar hversu mikilvægt það er að menn setji sams konar reglur fyrir báta undir tólf metrum. Og í ljósi þess að fara á að samþykkja hér ný lög um strandveiðar á Alþingi tel ég mjög mikilvægt að menn komi þessum máli áfram.

Seinni spurningin mín varðar líka öryggisatriði sjómanna eða eftirlit með þeim en bátum undir tólf metrum er ekki skylt að hafa lögskráningu og forsvarsmenn smábátafélagsins hafa sett sig upp á móti því og finnst það þunglamalegt. Þá velti ég því upp við hæstv. samgönguráðherra að í dag eru menn skyldugir til þess að tryggja áhöfnina. Væri þá hugsanlega hægt að gera það með þeim hætti að menn tilkynni um kennitölur þannig að hægt væri að hafa einhvers konar eftirlit með því hvort þeir sem stunda sjó á bátum undir tólf metrum hafi lokið öryggisfræðslu? Það hefur margoft komið fram hjá þeim mönnum sem lent hafa í sjávarháska að þeir þakka oft lífgjöfina að hafa farið í Slysavarnaskóla sjómanna, það hafi skilið milli feigs og ófeigs.