137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

háskólasetur á Ísafirði.

63. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál er eitt af þessum stóru og mikilvægu byggðamálum og það er mjög mikilvægt að skýr svör séu gefin og sagt skýrt frá hvernig þróunin verður. Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta núna er sú að það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir því að auka vægi menntunar í landinu. Æ fleiri vilja fara í nám og aðstæður eru vitanlega þannig að gefa þarf sem flestum kost á því að sækja nám. Því eru tækifæri til að efla þær stofnanir út um allt land sem sinna kennslu og ekki síst á háskólastigi. Ég reikna því með því í fyrirspurninni að það sé vilji stjórnvalda nú sem fyrr að standa að uppbyggingu háskólasetursins á Ísafirði. Því er í rauninni verið að spyrja um stefnu. Það er í sjálfu sér ekki verið að kalla eftir einhverjum töfralausnum eða galdralausnum.

Spurt er: Hvernig hyggst ráðherra standa að uppbyggingu háskólasetursins á Ísafirði?

Ég efast ekki um að ráðherra fari létt með að svara þessari spurningu en hins vegar snýst það svolítið um það hvort þessar háskólastofnanir og setur sem eru víða um land falli ekki vel að þeim hugmyndum og þeim ræðum sem hafa verið haldnar af hálfu ríkisvaldsins, að stuðla beri að og efla menntun.

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað árið 2005 af 40 aðilum og þar á meðal öllum háskólum landsins ef ég hef tekið rétt eftir. Þetta er vitanlega frekar ung háskólastofnun. Hún er í umhverfi sem er mjög vinsamlegt og gjöfult til að eflast í og dafna í nánum tengslum við atvinnulíf, opinberar stofnanir og rannsóknastofnanir. Þessi ágæta stofnun, eða þetta ágæta háskólasetur, hefur því alla burði til að verða enn stærra og mikilvægara í menntakerfi okkar. Því ákvað ég að orða þessa spurningu með þessum hætti því að það er mjög mikilvægt að við sendum út þau skilaboð að við viljum efla þær menntastofnanir eða þá menntun sem við getum staðið við bakið á í dag. Spurningin er því einfaldlega þessi: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra standa að þessu?