137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

háskólasetur á Ísafirði.

63. mál
[16:53]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurnina um Háskólasetur Vestfjarða. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er hér um að ræða sjálfseignarstofnun sem að standa um það bil 40 aðilar, háskólar, atvinnulíf, opinberir aðilar, og háskólasetrið hefur virkað sem tengiliður milli þessa svæðis, Vestfjarða, og háskólans með því að sjá um fjarnám, með því að auglýsa Vestfirði sem áhugasvæði fyrir rannsóknir, halda ýmis námskeið og stunda ýmsa fjölbreytta starfsemi.

Ef ég leyfi mér aðeins að líta aftur í tímann til þeirrar uppbyggingar sem þegar hefur verið á þessu setri þá undirrituðu menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti samning vegna þróunarverkefnis um rekstur á Háskólasetri Vestfjarða árið 2006 og hann gildir til ársloka 2010. Á fjárlögum 2008 voru, með hliðsjón af skýrslu nefndarinnar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, veittar 20 millj. kr. til viðbótar til að efla starfsemi setursins og heildarframlag menntamálaráðuneytis vegna þessa á fjárlögum árið 2009 nemur 78,1 millj. kr. auk 23,6 millj. kr. framlags frá iðnaðarráðuneyti.

Vegna mótvægisaðgerða vegna minnkaðra þorskheimilda var gerður tímabundinn samningur um frumgreinanám við háskólasetrið árið 2008. Þar var um að ræða þríhliða samning milli háskólasetursins, menntamálaráðuneytis og Háskólans í Reykjavík. Fjárveitingar til þessa á árunum 2008 og 2009 nema 56,4 millj. kr., þar af 28 millj. kr. fyrir árið 2009.

Árið 2008 var líka gerður samningur um meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun með þríhliða samningi milli háskólasetursins, menntamálaráðuneytisins og Háskólans á Akureyri en þar eru gerðar kröfur um ábyrgð háskóla sem hlotið hafa viðurkenningu á fræðasviðinu og ber Háskólinn á Akureyri ábyrgð á því að námið uppfylli gæða- og námskröfur á grundvelli laga um háskóla. Þessi samningur gildir út árið 2009 en áformað er að hann verði framlengdur, enda þykir einstaklega vel hafa tekist til með þetta nám og þar hefur verið mikil ásókn. Þetta er auðvitað ein af þeim greinum þar sem við Íslendingar ættum að geta lagt eitthvað fram til alþjóðasamfélagsins. Þarna koma bæði erlendir nemar og kennarar og þarna stunda Íslendingar líka nám og íslenskir fræðimenn miðla af þekkingu sinni. Við teljum að þetta sé til marks um það þegar einkar vel tekst til að hafa slíka starfsemi úti á landi, í nánu nágrenni við hafið, við sjálfa auðlindina.

Af því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson spyr um stefnuna almennt þá held ég að háskólasetrin hafi reynst okkur mjög gjöful á undanförnum árum. Litlar stofnanir um land allt hafa reynst byggðarlögunum mjög mikilvægur vaxtarsproti. Þar hafa myndast aðstæður fyrir háskólamenntað fólk til að starfa og mjög oft myndast afleidd störf í kringum þessi háskólasetur. Þau starfa mjög oft með öðrum aðilum, atvinnuþróunarfélögum, og í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, framhaldsskóla og eftir atvikum aðra aðila, fyrirtæki í viðkomandi byggðarlagi. Þarna myndast oft ákveðinn miðpunktur frjórrar hugsunar þannig að við höfum séð að þessi setur hafa haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðarlög.

Hvað varðar heildarstefnumótun í þeim efnum þá er hún til skoðunar samhliða þessari almennu endurskoðun á háskólastiginu, hvernig við getum nýtt þær auðlindir sem liggja í þessum setrum um allt land enn betur. Uppi hafa verið ýmsar hugmyndir um það hvernig setrin geti orðið einn netháskóli, getum við sagt, fyrir landið allt með ólík fræðasvið sem áherslur, verið styrkur fyrir landsbyggðina og um leið veitt stærri stofnunum mikilvægt innlegg í fræðistörf með því að vera með eitthvert sérsvið sem þeir geta miðlað af á móti. Ég tel að þessi setur eigi eftir að skipa hlutverk í framtíðaruppbyggingu háskólasamfélagsins á Íslandi. Að mínu viti er menntun ein mikilvægasta byggðastefna sem við Íslendingar eigum og getum stólað á. Setrin hafa þar skipt máli og skilað árangri.

Hvað varðar þetta háskólasetur sérstaklega þá hef ég þegar nefnt meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun en ég hef líka fyrirhugað að heimsækja háskólasetrið á næstunni og ræða við forsvarsmann þess um þeirra sýn og þeirra framtíðarhlutverk í þessu heildarsamhengi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að forsvarsmenn setranna og þeir fræðimenn sem þar hafa starfað taki þátt í þeirri stefnumótun sem er fram undan.