137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

háskólasetur á Ísafirði.

63. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Það er rétt sem hefur komið fram í máli hennar og annarra hér að þessi stofnun eða háskólasetrið er gríðarlega mikilvægt sem tengiliður menntastofnana inn á þetta svæði sem þarna er og hefur staðið sig mjög vel. Ég leyfi mér að túlka orð ráðherra þannig að það sé vilji til þess að Háskólasetur Vestfjarða fái tækifæri til að starfa áfram og efla sig og ég fagna því að hún ætli að gera sér ferð til kynna sér þá starfsemi því að ég veit að eins og við hin sem höfum komið þarna og kynnt okkur þessa starfsemi mun hún heillast af því sem þarna er í gangi og hvaða stefnu menn hafa tekið þarna.

Ég tek líka undir að háskólasetrin eru mjög — og háskólar yfirleitt, hvort sem þeir eru litlir eða stórir, mikilvægar stofnanir — en háskólasetur og jafnvel smærri háskólar eru mjög mikilvægir líka á þeim stað þar sem þeir eru. Þetta eru akkeri í sínu samfélagi líkt og háskólar eru í borgum eins og háskólarnir hér í Reykjavík eru, þetta eru mikilvægar stofnanir og akkeri á höfuðborgarsvæðinu og því skiptir miklu máli út frá þeim sjónarmiðum líka að gefin séu skilaboð eða fyrirheit um að áfram verði staðið við bakið á þessum stofnunum. Þetta er þannig að þeir sem starfa í svona stofnunum og jafnvel þeir sem starfa utan þeirra og vilja hag þeirra sem bestan þurfa vitanlega að vita hvernig framtíðin er eða a.m.k. hvernig viðhorf manna til framtíðar eru. Ég veit að margt er óljóst varðandi framtíðina akkúrat í dag, en vilji þeirra sem stjórna og ráða á hverjum tíma þarf að vera býsna skýr.