137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

miðstýring háskólanáms.

72. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Nú þegar við blasa einhverjar mestu aðgerðir í ríkisbúskap okkar þurfum við að staldra við og sjá og greina hvað við höfum gert rétt á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst þegar kemur að grunngildum samfélagsins, réttinum til heilsugæslu, réttinum til mennta, að ég tali nú ekki um réttinum til vinnu.

Á síðustu árum hefur Háskólinn á Akureyri byggst upp sem einhver besta menntastofnun landsins að mínu viti og hefur jafnframt verið einhver best heppnaða byggðaaðgerð í sögu þjóðarinnar. Við þurfum einmitt í þeim efnum þegar kemur að byggðasamfélögum landsins að spyrja okkur stórra spurninga aftur og aftur. Viljum við halda einsleitninni í atvinnulífinu úti á landi áfram og tryggja fjölbreytnina í atvinnulífinu suðvestan lands í sessi eða ætlum við að gera ráð fyrir því að íbúar þessa lands lifi í einu og sama samfélaginu?

Háskólinn á Akureyri er í reynd stóriðjan á Akureyri. Hún spúir ekki frá sér mengun en hún blæs út af greind og vitneskju. Það er sagt og ég hef það eftir þar til bærum fróðum mönnum að ef Háskólinn á Akureyri yrði lagður niður hér og nú, þýddi það og jafngilti að þrjú þúsund manns flyttu burt frá Akureyri. Á Akureyri búa nú um 18 þúsund manns, þetta er sjöttungur íbúa á svæðinu.

Að þessum formála sögðum segi ég, frú forseti: Mig hryllir við erlendum aðkomnum hugmyndum um að öllu háskólanámi verði miðstýrt frá Vatnsmýrinni í Reykjavík, að öllu verði ráðið í stofnunum sem eru hvor sínum megin við flugbrautarendana í Reykjavík. Þetta er óbærileg hugsun vegna þess að það á að vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að tryggja fjölbreytni í atvinnulífi alls staðar á landinu.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að öllu (Forseti hringir.) háskólanámi verði miðstýrt frá einu og sama póstnúmerinu á Íslandi í framtíðinni?