137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

miðstýring háskólanáms.

72. mál
[17:18]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir innlegg sitt í umræðuna. Ég get tekið undir þau sjónarmið að það skiptir máli að varðveita frumkvöðlastarf, sjálfstæði og frjósemi sem verður til á ákveðnum stöðum. Það hefur orðið til þess að við sjáum ólíka háskóla á Íslandi, þeir eru merkilega ólíkir miðað við smæð landsins. Þó að þeir séu ansi hreint margir eru þeir um leið ótrúlega fjölbreyttir og miklar uppsprettur, mundi ég segja, þess hvernig fólk tekur málin ólíkum tökum hreinlega út frá því að aðrar rannsóknaraðferðir eru notaðar, aðrir skólar í gangi innan ákveðinna fræðigreina. Þetta er okkur auðvitað mjög dýrmætt. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan um þessi sjónarmið, um hin akademísku gæði, sem eru auðvitað það sem við þurfum að viðhalda því þau skipta máli — varðveita um leið þetta frumkvöðlastarf og hafa í huga byggðasjónarmið og hagræðingu. Ég er nokkuð bjartsýn á að við getum það með það að leiðarljósi að efla þetta samstarf — því að sumu er hægt að ná fram hreinlega með samstarfssamningum. Þannig er hægt að ná fram miklum samlegðaráhrifum svo að nemendur geti nýtt sér námskeið á milli skóla, aukið samstarf kennara um að taka þátt í ákveðnum rannsóknarverkefnum og annað slíkt. Stundum geta slíkar samningar skilað allt eins miklu og beinharðar sameiningar. Ég hef því lagt áherslu á að fólk skoði þetta út frá öllum sjónarmiðum. Ég held að háskólasamfélagið sé mjög reiðubúið að gera það og vinnur að því núna hvernig við getum brotið múra, eflt samstarfið en um leið varðveitt frumkvæðið á hverjum stað.

Ég þakka hv. þingmönnum umræðuna og þakka fyrir framhaldsræðu og kannski er það einmitt — ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þetta er góð hugmynd um þrískipt háskólasamfélag á Íslandi og ég efa ekki að hún verði til umræðu í þessum efnum.