137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.

74. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með því á síðustu áratugum hvernig mannréttindabaráttu fólks með þroskahömlun hefur undið fram. Ekki eru nema örfáir áratugir síðan fólk með ýmiss konar þroskahömlun, fötlun og fjölfötlun var einfaldlega útilokað frá samfélagi okkar, hvort heldur kom til heilsugæslu, menntunar eða annarrar lífsfyllingar. Við sjáum að baki marga glæsta sigra á þessu sviði en enn er ekki nóg að gert til að fólk sem býr við þroskahömlun og ýmiss konar fötlun sé sett á sama stall og svokallað heilbrigt fólk í þessu samfélagi.

Sú var tíðin að fólk með þroskahömlun og fötlun átti þess vart kost að ganga til grunnmennta í landinu. Unnin hefur verið bragarbót á því. Þá mætti þessu fólki næsti veggur sem var framhaldsnám og lengi vel var það svo að úllen/dúllen/doff-aðferðin var notuð þegar fólk með þroskahömlun útskrifaðist úr grunnskólum og fékk inni í framhaldsskólum. Sumir fengu inni, aðrir ekki þrátt fyrir landslög, þrátt fyrir margsettar reglugerðir í hinum og þessum ráðuneytum. Þetta er að mínu viti einhver mesta hneisa sem við höfum búið við lengi vel en ég endurtek það sem ég gat um áðan að margir sigrar hafa sem betur fer unnist. Nú stendur fólki til boða diplómanám í Háskóla Íslands og það er gríðarlega mikið hagsmunamál. Það er út af fyrir sig mikil fullnægja að horfa á fólk sem býr við þroskahömlun og ýmiss konar fötlun eiga möguleika á að taka þátt í atvinnulífinu og stunda framhaldsnám eins og hver annar gegn einstaklingur á Íslandi. Ég held að það sé einu sinni svo að hvert samfélag sé best dæmt af því hvernig það kemur fram við þá sem standa höllustum fæti og eiga minnsta möguleikana í því hraða samfélagi sem við búum í.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra hvort hún muni beita (Forseti hringir.) sér fyrir því að framhald verði á diplómanámi fyrir fólk sem býr við fötlun og þroskahömlun (Forseti hringir.) í háskóla á Íslandi.