137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig afskaplega fræðandi að koma bratt inn á Alþingi landsmanna og kynnast þeim fjölmörgu verkefnum sem þar er unnið að í nefndum þings, innan þingsalar og á skrifstofum þingmanna og ekki síst úti í kjördæminu og heyra jafnframt frá fólkinu víða um allt land hvar skórinn helst kreppir.

Ég tek undir orð þingmanna við dagskrána fyrr í dag að eitthvað það ömurlegasta verkefni sem við glímum við í dag er að horfa fram á það atvinnuleysi sem við búum við án þess að geta komið þessum stóra hópi til hjálpar með hraðvirkum hætti. Ég held þess vegna að við þurfum að leita margvíslegra leiða til þess að koma atvinnulífinu hratt og vel af stað. Frú forseti. Ég held að fordómalaus atvinnustefna sé þar ágætisleiðarljós.

Það virðast vera allmörg ljón á veginum til þess að auka og hækka atvinnustigið, ef svo má segja. Eins og fram hefur komið eru margir erlendir fjárfestar reiðubúnir að fjárfesta hér á landi en reglugerðir og lagaheimildir skortir. Eins eru margir íslenskir og framtakssamir menn sem vilja spýta í lófana og stofna fyrirtæki. En jafnvel þar eru ýmis ljón á veginum.

Þar kemur að fyrirspurn minni sem ég beini til hæstv. iðnaðarráðherra. Þar standa raforkulögin víða fyrir þrifum og er út af fyrir sig merkilegt að löggjafinn hindri á margan hátt framsókn í íslensku atvinnulífi. Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að vinnu við breytingar á raforkulögum verði flýtt svo það muni nýtast íslensku atvinnulífi sem fyrst.