137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég hef sjálf áhyggjur af mörgu sem hann nefndi. Við auðvitað viljum helst greiða sem hraðast fyrir erlendri fjárfestingu inn í landið sem og líka styðja við og standa þannig að málum að ekki séu óþarfahindranir í vegi þess að menn geti sett á laggirnar öflug fyrirtæki og skapað hér atvinnu.

En varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá spyr hann mig um endurskoðun á raforkulögum. Í bráðabirgðaákvæði XIII við raforkulögin sem staðfest voru árið 2003 er gert ráð fyrir því að hagsmunaaðilar og þingflokkar skipi nefnd til endurskoðunar á raforkulögunum sem eigi að skila af sér hinn 31. desember árið 2010.

Þessi nefnd hefur verið skipuð og í henni eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, BSRB, fjármálaráðherra, Landsnets, Neytendasamtakanna, Orkustofnunar, Samorku, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Síðan er auðvitað þingflokkur framsóknarmanna, þingflokkur sjálfstæðismanna, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og nú Borgarahreyfingarinnar sem hafa tilnefnt fulltrúa inn og fulltrúi Frjálslynda flokksins fer út.

Þessa vinnu tel ég skipta gríðarlega miklu máli vegna þess að þarna á samtal, eins og á þessu heyrist, mjög breiður hópur hagsmunaaðila sem eru að fara yfir það frá öllum hliðum hvað megi betur fara í raforkulögunum sjálfum. Þessi vinna skiptir máli og hún er þannig stödd núna að menn hafa verið að kynna sér málið frá öllum hliðum og verið að ræða málið eins vítt og hægt er. En á næstu fundum fara þessir hagsmunaaðilar að þrengja vinnuna og fara að ræða hinar ýmsu breytingartillögur.

Raforkulögin byggja eðlilega nokkuð á þeim aðstæðum sem voru til staðar á raforkumarkaði þegar þau voru sett árið 2003 en lögin skipta raforkunotendum að meginstefnu upp í tvo hópa. Almenna notendur, þ.e. heimili og atvinnufyrirtæki, og síðan stórnotendur. Lögin ganga að nokkru út á það að skilja á milli þessara aðila þar sem stórnotendur njóta annarra kjara en almennir notendur sökum þess hversu mikla raforku þeir nota. Þannig er stórnotandi í lögunum skilgreindur sem notandi sem notar á einum stað að minnsta kosti 14 megavött af afli með árlegum nýtingartíma upp á 8.000 stundir eða meira.

Allir stórnotendur í dag hafa umtalsvert meiri þörf fyrir afl en kveðið er á um í skilgreiningu raforkulaga. Þannig nota álverin á bilinu 300–600 megavött. Í frumvarpi sem lagt var fram í þinginu árið 2007 til breytinga á raforkulögunum lagði forveri minn í stól iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson hæstv. utanríkisráðherra, til að þessi skilgreining, þ.e. aflviðmiðið, yrði lækkað í 8 megavött. En það náði ekki gegn hér á hinu háa Alþingi.

Þetta studdi ég vegna þess að það skiptir máli að stórnotendaskilgreiningin sé ekki hamlandi fyrir þá aðila sem þurfa á orku að halda en þurfa ekki samstundis á 14 megavöttum að halda heldur eru að byggja sig upp í áföngum. Þetta þarf klárlega að skoða og þetta er eitt af því sem er í erindisbréfi nefndarinnar svo dæmi sé tekið.

En ég nefni sem dæmi líka að vinnsla og sala raforku er samkeppnisstarfsemi og kjör til meðalstórra atvinnufyrirtækja ráðast af frjálsum samningum milli atvinnufyrirtækjanna og raforkusalans. Þessi breyting hefur í einhverjum tilvikum skilað meðalstórum atvinnufyrirtækjum þó betri raforkusamningum.

Þarna er verið, virðulegi forseti, að fara yfir málið frá öllum hliðum með þeim aðilum sem helst eiga hagsmuna að gæta. Það skiptir máli. En samhliða er það stefna ríkisstjórnarinnar að marka orkustefnu á Íslandi. Það hefur ekki verið gert áður að marka stefnu í samvinnu við stefnumörkun okkar í atvinnumálum þannig að orkustefnan slíti sig ekki frá stefnumörkun í atvinnumálum þar sem þess er gætt að þær vinni saman. Ég efast ekki um að þegar þessari vinnu er lokið, þ.e. vinnu við gerð orkustefnu, þá séu forsendur til þess að hraða þeirri vinnu sem nefndin vinnur að. Vonandi koma jafnvel breytingar á raforkulögunum hingað inn fyrr en dagsetningin í bráðabirgðaákvæðinu kveður á um.