137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:37]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég bind heilmiklar vonir við það sem fram kom í svari ráðherra iðnaðarmála um þessa endurskoðun af því það er mjög mikilvægt spursmál, t.d. fyrir garðyrkjuna sem er stundum kölluð gjaldeyrissparandi hollustugrein sem skapar mikil verðmæti hérna inn í landið og framleiðir mikið af mikilvægri vöru, að þeir bændur geti keypt raforku á stórnotendaverði.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að í þessari endurskoðun líti menn til þess að breyta skilgreiningunni á stórnotanda þannig að garðyrkjubændur geti keypt raforku á stórnotendaverði eins og er með stóriðju í landinu. Þessi grein grundvallast meira og minna á raforkukostnaði og hann er gífurlega hár og er að sliga marga stóra garðyrkjubændur. Það þarf að byggja undir þessa grein og það er best gert með því að breyta þessari skilgreiningu. Þess vegna fagna ég því sem fram kom í svari ráðherra um áherslur hennar í þessu nefndarstarfi.