137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hafa komið fram og þau svör sem hér hafa verið gefin. Mig langar þó að spyrja ráðherra hvort ég hafi tekið rétt eftir að sú nefnd sem hún sagði frá og fjallaði um sem er ekkert nema gott um að segja, eigi að skila af sér fyrir árslok 2010 eða á árinu 2010. Ég man ekki alveg hvernig það var orðað.

Ef svo er og ef við ætlum að bíða eftir því að sú nefnd skili af sér til þess að fá fram einhverjar breytingar á raforkulögunum, nauðsynlegar breytingar miðað við þær aðstæður sem við erum í dag þá er heldur langt að bíða finnst mér. Ég held að það þurfi að koma fram með breytingar á lögunum nú þegar þó að við tökum ekki öll lögin í nefið eða förum í gegnum þau þá þurfi að koma fram með breytingar sem auðvelda fjárfestingar hér á landi.

Ég veit að það er eftir því kallað og það er eftir því beðið að við gerum slíkar breytingar. Vitanlega er ég sammála því sem kom fram varðandi garðyrkjuna. En við þurfum að gera þessar breytingar fljótt.