137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[18:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hvernig er þyrlusveit Landhelgisgæslunnar búin undir að bregðast við neyðartilvikum eftir að flugmönnum var fækkað nýverið?

Því ber að svara þannig að hún er undir það búin að ákveðnu marki. Ég væri ekki að skýra þingheimi rétt frá ef ég segði að hægt væri að ábyrgjast 100% björgunargetu allan ársins hring. Ég lét taka saman tölur um hvernig þetta lítur út vegna fyrirspurnar hv. þm. Róberts Marshalls og vissulega koma fram ákveðnar staðreyndir í svari mínu. Í niðurlagi svarsins segir að þegar uppsagnir koma að fullu til framkvæmda næsta haust verður nokkuð um að aðeins ein þyrla sé til taks. Það gæti þá verið í fjórðung til þriðjung hvers mánaðar eins og það er skipulagt. Þá verður björgunargetan aðeins 20 sjómílur frá ströndum því að þyrluflugmenn treysta sér ekki til að fara lengri vegalengdir nema að hafa aðra á eftir sér.

Lítum á rekstur Landhelgisgæslunnar. Ég ákvað í kjölfar ákveðins tilviks sem varð aðfaranótt 1. júní að hafa fund með Landhelgisgæslunni og farið var vel í saumana á rekstri hennar en það hafði reyndar áður verið gert. Nú horfist stofnunin í augu við ákveðinn sparnað og hann bitnar í rauninni síst á flugrekstrardeild. Reksturinn þar er aftur á móti mjög viðkvæmur eins og sjá má af þeim tölum sem við lítum á, þegar borið er niður í flugdeildinni hefur það þessar afleiðingar. Það væri ekki sannleikanum samkvæmt að segja að fimm vaktir geri sama gagn og sex en svona hefur þessu verið stillt upp og við höfum farið yfir rekstrartölur og rekstraráætlun með stofnuninni og hvernig það er allt saman. Stofnunin hefur í rauninni verið ákaflega markviss í aðhaldsaðgerðum sínum, við að halda tækjakostinum úti og leggja ekki skipum, leggja ekki þyrlu, leggja ekki flugvél, en reksturinn er þó eins og hann er. Ég get því ekki sagt annað en að svona standa málin og ég hef gert þinginu grein fyrir því.

Auðvitað tel ég að björgunarþjónusta við sjófarendur verði að vera með forsvaranlegum hætti. Ég tel ekki annað vera í stöðunni og þá er það spurningin hvort menn telja að sú björgunargeta sem lýst er í þessu skriflega svari sé forsvaranleg. Ég verð að segja að ég fylltist efasemdum þegar ákveðið atvik varð 1. júní og varð þá að reiða sig á velvilja og viðveru starfsmanna sem ekki voru á vakt. Mér skilst að það hafi verið þær erfiðustu aðstæður sem hugsast gátu sem komu upp en við getum heldur aldrei útilokað að slíkar aðstæður komi upp þannig að ég fagna því að fá að skýra þinginu frá því hvernig þetta lítur út frá okkar bæjardyrum séð. Ég tek undir áhyggjur um að þessi mál séu ekki með fullnægjandi hætti.