137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Til marks um þann flumbrugang sem hefur einkennt undirbúning að þessu máli og vinnuna í kringum það er verið að taka málið til 3. umr., sem við höfum greitt fyrir þingmenn minni hlutans með því að taka þátt í fundahöldum á aukafundum í nefndinni, og það hafa orðið veigamiklar breytingar á því milli 2. og 3. umr. sem er merki um þennan flumbrugang og hversu illa málið er undirbúið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Því ber samt sem áður að fagna að það var þó hlustað á þá aðila sem kallaðir voru fyrir nefndina en jafnframt verður að taka það fram að þeir umsagnaraðilar sem kallaðir voru fyrir nefndina og óskað var eftir að kæmu fyrir nefndina til að ræða þessi mál komu þar að frumkvæði okkar, minni hlutans í sjávarútvegs- og í landbúnaðarnefnd. Í einhverjum tilfellum þurftum við hreinlega að toga það út með töngum að fá að hitta þetta fólk. Eftir fundarhöld í morgun voru síðan gerðar þessar breytingar í frumvarpinu sem eru þó skref í rétta átt.

Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, þegar svo mikilvæg mál eru til umfjöllunar í þinginu sem varða svo marga og ekki síst veikustu byggðir landsins að vinnubrögðin skuli vera með þessum hætti og væri hæstv. ríkisstjórn nær að reyna að hraða þeim málum sem hún boðaði sumarþing til til að fjalla um eins og skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu og aukin atvinnusköpun í landinu. Það sést fátt af því.

Ég verð að lýsa undrun minni á því að hv. meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar skuli ekki fjölga klukkustundum fyrir smábáta til að sækja sér þennan mögulega afla meira en úr 12 í 14. Það eru engin haldbær rök fyrir því að leyfa ekki lengri tíma, en skemmri tími skekkir mjög samkeppnisstöðu þeirra sem standa kannski veikast gagnvart þessu máli. Þetta skekkir mjög samkeppnisstöðu þeirra byggða sem m.a. hafa treyst mjög á byggðakvóta sem grunn að fiskvinnslu í viðkomandi heimabyggð vegna þess að þar er lengra á miðin en annars staðar. Þetta rýrir möguleika þeirra byggða til að sækja þennan afla. Þetta rýrir líka möguleika þeirra sem eru að kaupa sér ódýrari báta til að fara inn í þetta kerfi, en eitt af markmiðum frumvarpsins er sagt vera það að greiða fyrir nýliðun í greininni. Og skyldi maður þá ætla að það væri litið til þeirra sem hafa minna fé á milli handanna og ætla að reyna að treysta á eigin dugnað og eljusemi við að koma sér af stað og kaupa sér þess vegna ódýrari og hæggengari báta. En þarna er verið að hygla þeim sem eiga stærri, kraftmeiri og öflugri báta á sama tíma og verið er að hygla þeim byggðum þar sem stutt er á miðin á kostnað þeirra byggða sem sumar hverjar standa veikast og eiga lengra á miðin. Ég skil ekki svona málsmeðferð, virðulegi forseti, og ég skil ekki að þeir vinstri flokkar sem starfa á þinginu og kenna sig við jafnaðarmennsku skuli stunda svona vinnubrögð þegar þeir á annað borð eru að hræra í þessum málum.

Með miklum harmkvælum, virðulegi forseti, tókst okkur loksins að fá fulltrúa Landhelgisgæslunnar á fund nefndarinnar í morgun og er það vel. Þar komu m.a. fram áhyggjur þeirra vegna fjareftirlitsbúnaðar og vegna aukins eftirlits og álags á Vaktstöð siglinga. Og þá kom í ljós að ekkert hefur verið rætt við Landhelgisgæsluna varðandi Vaktstöð siglinga, um mögulega aukið álag vegna þessa og mögulegan kostnaðarauka sem því kann að fylgja. Enn eitt dæmið um þann flumbrugang sem hér viðgengst.

Það hefur komið fram hjá Siglingastofnun að gefin hafa verið út leyfi á smábáta sem verið er að sækja um haffæri fyrir vegna þessara veiða. Gefin hafa verið út leyfi með undanþágu fyrir fjareftirlitsbúnaði upp í 1–3 mánuði. Það er því ljóst að við erum að brjóta þá reglu sem hefur verið við lýði og hefur verið grunnurinn að því öryggiskerfi sem fiskiskipafloti okkar býr við og er stærsti þátturinn í því að fækka slysum á sjó. Það er verið að gefa undanþágu fyrir fjareftirlitsbúnaði í mörgum skipum og gefin hafa verið út haffærisskírteini með þessum undanþágum. Reyndar virðist mér, eftir fund með nefndinni, sem þessu hafi verið breytt og Siglingastofnun gefi ekki út haffærisskírteini með þessum undanþágum lengur heldur verði menn að koma upp fjareftirlitsbúnaði sem er náttúrlega eðlileg krafa og allir á þessum vettvangi hafa búið við á undanförnum árum.

Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í morgun hvatti ég sérstaklega hv. þingmenn í meiri hluta nefndarinnar til að taka til skoðunar meðferð þeirra á byggðakvótanum í þessu samhengi. Það er verið að breyta leikreglum í miðjum leik, virðulegi forseti, og það er aldrei gott. (Gripið fram í.) Þegar menn leggja af stað í einhvern leik verða þeir að geta treyst því að þær leikreglur sem þeir eiga að spila eftir gildi allan tímann en svo er ekki í þessu tilfelli. Fjöldinn allur af útgerðarmönnum, sérstaklega minni útgerða, smábáta um allt land, gera út á það að fá úthlutun í byggðakvóta sem er grunnurinn fyrir fiskvinnslu í heimabyggð þeirra, en eins og menn vita væntanlega er byggðakvóta úthlutað þannig að menn verða að landa a.m.k. tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað í byggðakvótanum í sinni heimabyggð, til vinnslu í sinni heimabyggð. Þessu er verið að raska, virðulegi forseti, í miðjum leik. Þarna er líka verið að ógna þeirri leið sem hefur kannski verið helsta vonarleið nýliða í greininni þannig að frumvarpið er í raun farið að vinna gegn markmiði sínu. Nýliðar í greininni hafa getað fjárfest í bátum, keypt sér einhvern kvóta, landað í heimabyggð, náð sér í byggðakvóta og þannig byggt sig upp hægt og bítandi eins og dugmikið eljusamt fólk gerir gjarnan í atvinnurekstri. Aftur leggja þessir jafnaðarmannaflokkar stein í götu þessa fólks og hygla þeim efnameiri í þessu samhengi, þeim sem hafa efni á því að kaupa dýrari tæki og vinna þetta með þeim hætti.

Ég hvatti hv. meiri hluta til þess á fundi nefndarinnar í morgun að breyta þessu, hreyfa ekki við byggðakvótanum í þessari tilraunastarfsemi sinni, en eins og ítrekað hefur komið fram í málflutningi bæði nefndarmanna og hæstv. ráðherra þá er hér um tilraunastarfsemi að ræða og tilraunadýrin eru smábátasjómenn um allt land sem hafa treyst á byggðakvótann í rekstri sínum. Þeir skulu blæða, þeir eru tilraunadýrin hjá þessari hæstv. vinstri ríkisstjórn.

Við fengum á fund nefndarinnar, virðulegi forseti, fulltrúa sveitarfélaga, lítilla sveitarfélaga, sem hafa sagt okkur að verði þetta frumvarp að lögum þýði það einfaldlega að fiskvinnsla muni leggjast af á þeim stöðum, á stöðum sem eru kannski með um 200 tonn í byggðakvóta, sem þýðir að þar er landað a.m.k. um 400 tonnum og verður auðvitað miklu meira þegar menn eru á annað borð farnir að landa og það er vinnsla til staðar. Athafnamenn hafa verið að setja upp vinnslu á þessum stöðum byggða á þessum grunni. Þetta er sorglegt vegna þess að það er ekki eins og byggðakvótinn sé eitthvað sem mikil sátt hefur ríkt um í fiskveiðistjórnarkerfi okkar nema síður sé. Þetta hefur verið ágreiningsmál en í tíð hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, var búið að koma þannig skikki á úthlutunarreglur í þessu sambandi að sáttin um þetta var að aukast. Búið var að eyða þeim stóru ágreiningsmálum sem voru fyrir hendi en þá koma þessir jafnaðarmannaflokkar og ráðast á þetta með þeim afleiðingum sem ég hef farið yfir, mögulegu afleiðingum, og hefur verið lýst ítrekað fyrir nefndinni.

Það er engin tilviljun að við í minni hlutanum óskuðum eftir að fá alla þessa aðila á fund nefndarinnar. Ástæðan er einföld, um þetta mál er mjög mikill ágreiningur. Allir hagsmunaaðilar sem hafa komið fyrir nefndina gera meira og minna athugasemdir við málið. Þar er um að ræða smábátaútgerðarmenn, LÍÚ, öll samtök sjómanna, sveitarfélögin, stór og smá, og Samband íslenskra sveitarfélaga, ferðaþjónustuna. Allir sjá ógn í þessu en áfram skal keyrt á sama hraða. Þetta sem sett var fram í grænni nostalgíu af hálfu vinstri grænna fyrir kosningar algerlega vanreifað, algerlega vanhugsað er síðan tekið upp á arma núverandi ríkisstjórnar og skal keyrt áfram sama hvað það kostar. Það er sama, virðulegi forseti, hvað vitleysan kostar hjá ríkisstjórninni, það skal bara keyrt í gegn.