137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að valda hæstv. sjávarútvegsráðherra vonbrigðum með því að vera ekki tilbúinn til að loka augunum fyrir reynslunni og láta eins og við séum að byrja nú í dag að stýra íslenskum sjávarútvegi.

Í upphafi skyldi endi skoða. Það sem menn verða auðvitað að átta sig á þegar þeir fara af stað með svona mál er hvar þetta muni enda. Sú spurning sem hæstv. sjávarútvegsráðherra þarf að spyrja sjálfan sig að er þessi, frú forseti: Hvenær kemur að því að ég þurfi að loka kerfinu? Vegna þess að ef bátar halda áfram að flykkjast í þetta kerfi, sem ég tel að sé alveg einsýnt og einboðið, og eftir að sjávarútvegsráðherra er búinn að hrekjast í að fækka dögunum sem menn mega nota bátana, því menn hafa hámarksaflamarksviðmið fyrir hvern mánuð á hverju svæði, hvenær telur hann mögulegt að hann komist í þá stöðu að segja: Hingað og ekki lengra verður gengið, hérna verð ég að loka fyrir það að menn bætist inn í þetta kerfi?

Annað atriði varðar þá fullyrðingu að við sjálfstæðismenn séum ekki tilbúnir til að skoða neinar breytingar. Ég veit ekki betur en að við höfum lýst því yfir að við munum taka þátt í vinnu þess starfshóps sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sett á laggirnar til að endurskoða þetta kerfi. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram mjög opið umboð fyrir nefndina en á sama tíma er hann að keyra í gegn þetta mál og yfir okkur hanga 5% afskriftahugmyndir.

Að lokum vil ég segja að það verður mjög skrýtið ef menn ætla sér að meta afrakstur þessa núna í sumar. Það verður stuttur tími. Ég benti á í ræðu minni áðan að að sjálfsögðu munu ekki bætast við mjög margir bátar á þessu sumri. En á næsta og svo næsta og svo koll af kolli, síðan mun hæstv. ráðherra fækka dögunum þangað til að kemur að hinu óumflýjanlega. Hann verður að loka kerfinu. Það hefur gerst áður og ítrekað. Það er saga þessara fiskveiða. Það er óeðlilegt og rangt að horfa fram hjá reynslunni í þessu máli. (Forseti hringir.)