137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérstakt að heyra hv. þingmann snúa út úr málum algerlega þvers og kruss. Hann vitnar í mikla sátt hjá sveitarfélögum um þær breytingar sem verið er að gera og vitnar til ályktana í Fjallabyggð og á Akureyri þar sem hvatt er til þess að farið verði í ákveðna endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni til að tryggja grundvöll þess. Þetta eru þær byggðir m.a. sem fara mjög illa út úr strandveiðifrumvarpinu og það þekkir hv. þingmaður mjög vel. Hann kemur frá þessu svæði og veit að smábátasjómenn á þessum svæðum munu eiga mjög undir högg að sækja í þessu kerfi vegna þess að það er svo langt á miðin fyrir þá. Samkeppnisstaða þeirra skerðist verulega.

Enn og aftur er LÍÚ-grýlan dregin á flot og sagt að ekki komi á óvart þótt LÍÚ sé á móti frumvarpinu og breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. En hvað með alla hina? Hvað með alvarlegar athugasemdir smábátasjómanna, ferðaþjónustunnar, allra sjómannasamtaka landsins, sveitarfélaganna um landið, einstakra sveitarfélaga sem segja að grundvelli undir fiskvinnslu á viðkomandi stöðum sé ógnað með þeim hætti að reikna megi með að hún leggist niður? (Gripið fram í.) Súðavík, Stykkishólmur og fleiri staðir sögðu: Vinnslan mun hreinlega leggjast af við þetta.

Við þökkuðum fyrir það á fundi nefndarinnar í morgun að hafa fengið umsagnaraðila á fund en það var eftir að við höfðum náð að draga (Forseti hringir.) það út úr formanni nefndarinnar með töngum, við fengum umsagnaraðila á fund milli 2. og 3. umr. sem þó hefur leitt af sér breytingar (Forseti hringir.) sem eru jákvæð skref en ganga alls ekki nægilega langt. Við sjálfstæðismenn treystum okkur til að styðja þessar breytingartillögur af því að við viljum ganga lengra.