137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist allt bera að sama brunni í ræðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar í þessu máli. Í ræðum í gær um þetta mál fór hann ítrekað yfir það hvernig sjómenn mundu haga sér ef frumvarpið yrði að lögum að þeim yrði heimilt að sækja sjó innan þess kerfis.

Hann talaði ítrekað um meðferð afla, menn mundu fara illa með aflann og það yrði lítið hugsað um meðferð á aflanum. Það mundi rýra aflaverðmætið, sagði hann orðrétt í gær, (Gripið fram í.) ef menn fara út í þetta kerfi. Samt sem áður mælir hann með því í dag. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerir athugasemd við þá ákvörðun meiri hlutans á nefndarfundi í morgun að auka úthaldið, að leyfa lengra úthald á bátunum, um tvo tíma, úr 12 í 14. (JónG: Og lengur.) Að fara aðeins lengra. Það er ekki verið að hugsa um verðmæti aflans þar, að rýra gæðin þá, heldur betur ekki. Það er ekki verið að hugsa um vinnulöggjöfina í landinu sem mælir með því að ekki sé unnið sé lengur en 14 tíma á dag. Það er ekki verið að hugsa um öryggismálin þar. (Gripið fram í.) Þó hélt ég að hv. þingmaður gerði það og ég veit það, ég ætla ekki að gera honum upp þá skoðun, virðulegi forseti, að hann sé að reyna að auka óöryggi sjómanna því að ég hef reynt hann af öðru og veit að hugur hans stendur til þess að reyna að tryggja öryggismál sjómanna sem mest. En ég er ekki alveg tilbúinn til að kaupa þau rök sem hv. þingmaður hefur fram að færa að telja að væntanlegu kerfi í frjálsum handfæraveiðum fylgi hvati til að taka áhættu. Ég treysti íslenskum sjómönnum miklu betur en svo að þetta sé þeim hvatning til að taka áhættu að óþörfu.