137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu og er kannski óþarfi að lengja hana um of en þó er rétt að gera allar þær tilraunir sem mögulegar eru til að vekja athygli á þeim vanda sem svo augljóslega er í uppsiglingu.

Ég hjó eftir því að sú skoðun hefur komið fram að þetta frumvarp gæti orðið grundvöllur einhvers konar sáttar og að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi ekki náð markmiðum sínum. Því væri þetta tilraun í áttina til þess að ná þeim markmiðum sem sett hefðu verið. Það er rétt að skoða aðeins þá fullyrðingu og þá hugsun. Mun þetta frumvarp ýta fiskveiðistjórnarkerfinu í þá átt að ná markmiðum sínum sem eru hagkvæmar veiðar á Íslandsmiðum, auka möguleika okkar til fiskveiða, auka mögulegan arð fyrir þjóðina? Svarið við því liggur í augum uppi: Það mun ekki gera það. Hafi það vakað fyrir hv. stjórnarþingmönnum að reyna að leggja eitthvað til sem gæti ýtt fiskveiðistjórnarkerfinu í átt til þeirra markmiða sem sett voru, er þetta skref algerlega rangt. Þetta er skref aftur á bak og frá þeim markmiðum vegna þess — og enn og aftur ætla ég að endurtaka sjálfan mig — að þetta að fjölgar bara þeim skipum og bátum sem verða á sjó til að veiða sama magn af fiski. Hverjum dettur í hug að það sé tilgangurinn með stjórn fiskveiða eða útgerð á Íslandsmiðum? Tilgangurinn er ekki sá að hafa sem flesta báta á sjó. Tilgangurinn er sá að reyna að hámarka afrakstur greinarinnar.

Það má margt segja um núverandi fiskveiðistjórnarfyrirkomulag og það eru ýmsir gallar á því en þetta frumvarp, verði það að lögum, mun bara auka þá galla sem til staðar eru. Og hvað sáttina varðar leyfi ég mér að spá því, frú forseti, að þetta frumvarp mun valda miklum deilum þegar upp verður staðið í íslenskum sjávarútvegi. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að dagakerfið sem við bjuggum við, sem var auðvitað ekkert annað en það sama og lagt er upp með í þessu frumvarpi, nákvæmlega það sama og við bjuggum við í skrapdagakerfinu, olli alveg gríðarlegum deilum sem voru mjög skaðlegar fyrir íslenskan sjávarútveg. Þeir hv. þingmenn sem telja að hér sé á ferðinni sáttargjörð eða tilraun til að ná fram sátt munu verða fyrir miklum vonbrigðum því að þegar það gerist að að fækka þarf dögunum sem þessir bátar hafa til að veiða — þegar þeim fækkar jafnt og þétt og bátunum fjölgar — mun óánægjan vaxa jafnt og þétt. Og fyrr en varir mun hæstv. sjávarútvegsráðherra, hver svo sem það nú verður þegar að því kemur, þurfa að loka fyrir aðganginn. Þá verður gríðarleg ósátt, þá munu menn sjá að margir þeir sem fóru inn í kerfið og munu fara inn í það í sumar voru einmitt þeir sem áttu kvóta, höfðu eignast kvóta, selt hann, farið út úr kerfinu og átt bátana sína. Þá munu menn segja: Þetta var ógæfuspor því að hvorki leiddi það til þess að auka hagkvæmni fiskveiða á Íslandsmiðum né að ná fram nokkurri sátt. Þessi leið mun bara búa til ósátt í kerfinu. Það er því miður staðan og er ekki að sjá annað en að stjórnarmeirihlutinn sé algerlega ákveðinn í því að stíga þetta skref.

Við hv. þingmenn munum greiða atkvæði um þetta mál á fimmtudag, ef ég hef skilið það rétt, og síðan, verði frumvarpið að lögum, mun þetta kerfi taka gildi og menn munu prófa það í sumar. Ég fullyrði enn og aftur: Það mun ekki verða svo gríðarleg aukning á bátunum í sumar, einhver væntanlega. En næsta sumar mun þeim fjölga og sumarið þar á eftir mun þeim fjölga enn meira og allt það sem hér hefur verið sagt mun ganga eftir, því miður. Ég vildi að það væri öðruvísi, frú forseti, en sagan kennir okkur þetta og það er það sem við vitum að mun gerast, því miður.